Saga Sindra

0
358

Arnþór Gunnarsson. Félag unga fólksins. Saga ungmennafélagsins Sindra 1954-1966. Reykjavík: Bókaútgáfan Hólar 2022, 157 bls.

Arnþór Gunnarsson. Félag unga fólksins. Saga ungmennafélagsins Sindra 1954-1966. Reykjavík: Bókaútgáfan Hólar 2022, 157 bls.
Ungmennafélögin sem stofnuð voru um allt land, að norskri fyrirmynd, á fyrstu áratugum tuttugustu aldar eru stórmerkilegt fyrirbæri. Í þeim tók ungt fólk höndum saman í allskyns starfsemi, nærumhverfi sínu til heilla, auk þess sem félögin fullnægðu félagsþörf unga fólksins með málfundum, íþróttaviðburðum, skemmtunum, dansleikjum og ferðalögum. Guðmundur Guðmundsson skólaskáld (1874-1919) orti kvæði sem hann tileinkaði Ungmennafélagshreyfingunni og kallaði „Vormenn Íslands“. Kvæðið fangar vel þá hugsjón sem ungt fólk í byrjun aldar fóstraði, skáldið hvetur ungu kynslóðina til ýmissa verka á sviði þjóðmála og menningar. Verkefnin eru ærin: „Hér er þunga þraut að vinna, / þú átt leikinn, æskuher“ yrkir skáldið og talar jöfnum höndum um trjárækt og málrækt. Þetta voru tímar sjálfstæðisbaráttu og bjartsýni og unga kynslóðin trúði að hún gæti unnið Íslandi gagn og var fús til starfa enda var kjörorð ungmennafélaganna: „Íslandi alt!“.
Þótt ungmennafélögin hafi fyrst og fremst sprottið upp af þörf ungs fólks fyrir félagslíf og samveru á tímum fábreytni í afþreyingu er ljóst að félögin tóku sig alvarlega og höfðu háleit markmið bæði í þágu einstaklingsins og samfélagsins. Rækta átti andlegt heilbrigði með málfundum þar sem fólk hlýddi á fyrirlestra og skáldskap og æfði sig í ræðumennsku og líkamann átti að efla með leikfimi og íþróttaiðkun. Og helst átti að ástunda bindindi á áfengi og tóbak. Félagarnir áttu líka að láta sig samfélagið og umhverfið varða, reyndar allt landið og þjóðina og sterk þjóðerniskennd var grunnurinn sem félögin byggðu á. Kristin gildi voru höfð í hávegum og í lögum margra elstu ungmennafélaga á Íslandi var gerð krafa um að félagar undirgengust bæði bindindisheit og trúarjátningu.
Ungmennafélagið Sindri var stofnað 1. desember 1934 en áður höfðu verið stofnuð álíka félög víða í landshlutanum: Ungmennafélagið Máni í Nesjum, Málfundafélag Hornfirðinga, Talfundafélagið Valur á Mýrum, Ungmennafélagið Vísir í Suðursveit, Ungmennafélagið Hvöt í Lóni og Málfundafélag Öræfinga sem síðar var beytt í Ungmennafélagið Framtíðin. Arnþór Gunnarsson rekur sögu þessara félaga í upphafi bókarinnar sem annars er helguð sögu Ungmennafélagsins Sindra frá stofnun þess til ársins 1966.
Í fyrsta kafla bókarinnar skrifar höfundur: „Markmiðið með þessu riti er að varpa skýru ljósi á sögu Ungmennafélagsins Sindra og jafnframt félagslíf og hugðarefni ungs fólks í afskekktu en vaxandi kauptúni. Leitast er við að tengja þessa sögu við upphaf og þróun ungmennafélagshreyfingarinnar á Íslandi og örar samfélagsbreytingar sem urðu um miðbik 20. aldar“ (10). Þetta tekst Arnþóri með ágætum og nýtur hann þess vitaskuld að hafa áður skrifað Sögu Hafnar í Hornafirði.
Arnþór skiptir bókinni í átta kafla og í viðauka eru fyrstu lög Sindra og skrár yfir heimildir, myndir og mannanöfn sem koma fyrir í bókinni. Meginkaflarnir eru 4.-7. kafli. Í 4. kafla, SINDRI KEMUR TIL SÖGUNNAR, er tilurð félagsins er rakin og starfsemi þess fyrstu árin og fjallað um frumkvöðla félagsins. 5. kafli, Í UMRÓTI STRÍÐSÁRANNA, segir frá samskiptum Hafnarbúa við erlenda setuliðsmenn sem í fyrstu voru stirð en liðkuðust með tímanum og líkt og annars staðar á landinu var karlmönnum meira í nöp við hina erlendu hermenn en kvenfólkinu: „Raddir heyrðust af kvenpalli, þess efni, að ekki mundi spilla þó dátarnir létu sjá sig“ á dansleikjum (53). Í 6. kafla, SINDRABRAGGINN, segir frá draumi Sindra um að eignast eigið funda- eða samkomuhús og sá draumur rættist þegar herinn hvarf að landi brott í lok síðari heimstyrjaldarinnar og skildi eftir sig „þúsundir bárujárnsbragga víðs vegar um landið“ (88). Hermannabraggar höfðu verið reistir á Suðurfjörum og þegar þeir voru auglýstir til sölu árið 1944 keypti Sindri tvo bragga og notaði efnivið þeirra til að byggja upp einn bragga „á lóð á Heppu, skammt ofan við Miklagarð“ (88). Það mikla verk, að rífa niður braggana, steypa grunn og byggja upp nýjan bragga inni á Höfn, var allt unnið í sjálfboðavinnu og nýttist þetta húsnæði til margs konar starfsemi í tæpa tvo áratugi. Sérstaklega áhugavert er að lesa um hvernig bragginn nýttist til fjölsóttra bíósýninga um árabil og er öll sú saga frábært dæmi um hverju hugsjónastarf sjálfboðaliða getur komið til leiðar.

7. kafli nefnist TILVISTARKREPPA EFTIR STRÍÐ og þar er sagt frá því hvernig starfsemi Sindra dalaði verulega eftir stríð, sumpart vegna aukins framboðs á afþreyingu fyrir ungt fólk. Bíósýningar, dansleikir og bingókvöld nutu þó alltaf vinsælda og leiklistarstarfsemi blómstraði þrátt fyrir vægast sagt lélegar aðstæður í köldum og óvistlegum bragga þar sem hvorki var salerni né rennandi vatn. Við og við voru þó gerðar heiðarlegar tilraunir til að endurlífga starfsemi félagsins og aðstæður félagsins gjörbreyttust til hins betra þegar Sindrabær var tekinn í notkun 1963 en Arnþór rekur byggingasögu hússins í þessum kafla.
Í 8. og síðast kafla bókarinnar rekur Arnþór aftur helstu vörður í starfsemi Sindra undir fyrirsögninni ÁRÆÐNI OG FJÖLBREYTT STARFSEMI. Hann bendir réttilega á hvernig áræðni, drifkraftur og fjölbreytni einkenndi starfið og áréttar að saga Sindra veiti „innsýn í hugarheim ungs fólks á tímum mikilla þjóðfélagbreytinga“ (125).
Saga Sindra er mjög fróðlegt verk sem gefur skemmtilega innsýn inn í líf og hugarheim ungs fólks á tímabilinu sem bókin spannar. Fjöldi mynda prýðir verkið og auk megintextans eru margar skemmtilegar og áhugaverðar rammagreinar sem auka við efnið. Kauptúnið Höfn lifnar fyrir augum lesanda bæði í texta og myndum. Eins og Albert Eymundsson nefnir í formála bókarinnar kann það að koma á óvart hversu lítið fer fyrir umfjöllun um íþróttastarfsemi Sindra í bókinni en slík starfsemi er svo til allsráðandi í félaginu í dag. Ætla má að slík umfjöllun verði í fyrirúmi í síðara bindi verksins sem vonandi kemur út fljótlega.
Þess má geta til gamans að Hornfirðingurinn Þórbergur Þórðarson var virkur meðlimur í Ungmennafélagi Reykjavíkur árin 1909-18 og sóttist hann sérstaklega eftir að taka þátt í málfundum sem snerust um skáldskap og sat í ritnefnd Skinfaxa, blaðs UMFR. En Þórbergur hélst ekki lengi við í félaginu því ýmislegt í starfsemi þess og stefnu stríddi gegn áhugamálum hans og grundvallarskoðunum, svo sem sterk þjóðernisstefna og áhersla á kristna trú og bindindi. Þórbergur þótti líka oft sýna félaginu virðingarleysi með skopi í ritun fundargerða og var hann því settur af sem ritari fundargerða. Gamansemin sem honum var í blóð borin gerði honum erfitt fyrir með að tileinka sér hinn „sanna ungmennafélagsanda“. Þá þótti Þórbergur einnig ganga hart fram í mállýtanefnd, en slíkar nefndir voru ríkur þáttur í ungmennafélögum, m.a. hjá Sindra, þar sem starfandi var „málhreinsunarnefnd“ sem „hafði eftirlit með málfari félagsmanna á fundum“ (18). Ljóst er að vera Þórbergs í UMFR var honum sem skóli í ritlist og þannig höfðu ungmennafélög landsins ýmis áhrif á fólk eða eins Ásgeir Ásgeirsson forseti Íslands orðaði það voru ungmennafélögin „ósýnilegur þáttur í lífi ótrúlega margra manna“. Vorið 1937 skrifaði Halldór Laxness grein um Ungmennafélögin og frelsisbaráttu og segir: „Úngmennafélögin vöktu æskuna í öllum héruðum landsins til framsóknar, til vaxandi kröfuhörku á menníngarsviðum, og um leið og þau kendu æskumönnum að meta einstaklíngseðli sitt og leggja rækt við það, kölluðu þau einstaklíngana fram úr fásinninu og hófu skilníng þeirra til aukins þroska á sviði félagsmálanna.“ Þessi orð Nóbelsskáldsins eiga áreiðanlega vel við þá Hornfirðinga sem tóku þátt í uppbyggingu Ungmennafélagsins Sindra og lesa má um í bók Arnþórs Gunnarssonar.

Soffía Auður Birgisdóttir
Rannsóknasetri H.Í. á Höfn