Árið í Vatnajökulsþjóðgarði –helstu vörður ársins 2023 á suðursvæði

0
507

Fjölmargir gestir leggja leið sína í Skaftafell og á Breiðamerkursand allt árið um kring. Margir koma á eigin vegum til að skoða náttúruperlurnar en einnig eru samlegðaráhrif þar sem margir koma á svæðið til að nýta þjónustu afþreyingarfyrirtækjanna sem starfa innan þjóðgarðs og skoða þá fleira í leiðinni – eða öfugt, koma til að skoða náttúruperlurnar og skella sér síðan í ferð hjá einhverju afþreyingarfyrirtækjanna. Frá miðjum júní og fram í miðjan ágúst er boðið upp á fræðslugöngur með landvörðum og allt árið eru sérgöngur sem auglýstar eru sérstaklega, því hvetjum við lesendur til að fylgja Skaftafellsstofu og Jökulsárlóni á samfélagsmiðlum eða líta við á heimasíðu þjóðgarðsins.

Mannamót 2023 – Suðursvæði fer á
Mannamó
t
Í janúar 2023 fór starfsfólk Vatnajökulsþjóðgarðs á Mannamót sem haldið var í Kórnum í Kópavogi. Vatnajökulsþjóðgarður hefur tekið þátt undanfarin ár og hefur sú hefð skapast að skipta þátttöku milli svæða. Í ár var komið að starfsfólki Skaftafells, Breiðamerkursands og Hafnar að kynna sitt svæði, sem og þjóðgarðinn allan. Markmið og tilgangur viðburðarins er að skapa vettvang þar sem þjónustuaðilar og fyrirtæki á landsbyggðinni fá tækifæri til að kynna sína sig og vöruframboð sitt fyrir ferðaþjónustuaðilum sem staðsettir eru á höfuðborgarsvæðinu.

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra í
heimsókn á Höfn

Þann 1. febrúar tók starfsfólk suðursvæðis og aðalskrifstofu Vatnajökulsþjóðgarðs á móti Guðlaugi Þór Þórðarsyni, umhverfis- orku- og loftslagsráðherra, á skrifstofum Vatnajökulsþjóðgarðs í Nýheimum á Höfn í Hornafirði. Nýr stjórnarformaður, Jón Helgi Björnsson, var einnig með í för ásamt starfsfólki umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis. Í samtali við ráðherra var áhersla lögð á uppbyggingu á framtíðaraðstöðu Vatnajökulsþjóðgarðs á Höfn, en flutningur á aðsetri og lögheimili þjóðgarðsins varð 1. september 2022. Mikil samstaða og samstarfsvilji er á milli Vatnajökulsþjóðgarðs og Sveitarfélagsins Hornafjarðar um uppbyggingu á húsnæði á Höfn, bæði skrifstofur og aðstöðu til þess að taka á móti og fræða þá gesti sem heimsækja svæðið.

Eldur, ís og mjúkur mosi fær styrk frá
Barnamenningarsjóði Íslands

Í vor fékk verkefnið Eldur, ís og mjúkur mosi styrk úr Barnamenningarsjóði. Vatnajökulsþjóðgarður og Náttúruminjasafn Íslands standa fyrir verkefninu í samstarfi við listafólk og skóla í nágrenni þjóðgarðsins. Á suðursvæði eru bæði Grunnskóli Hornafjarðar og Grunnskólinn í Hofgarði samstarfsaðilar að verkefninu og hafa nú þegar farið í fyrstu smiðjurnar með listakonunum Evu Bjarnadóttur og Hönnu Dís Whitehead sem fengust til að taka verkefnið að sér í Öræfum og á Höfn. Verkefnið fellur vel að markmiðum þjóðgarðsins er varðar fræðslu til nærsamfélags og skóla. Einnig styrkir það listamenn í heimabyggð og skapar umræður og viðburði sem tengjast náttúruvernd.

Sumarstarfsfólk kemur til starfa í
Skaftafelli og á Breiðamerkursandi

Á hverju vori flykkist sumarstarfsfólk til okkar, eins og farfuglarnir, og gefur svæðinu meiri lit og líf. Starfsfólkið er undirstaða starfsemi okkar og sumarstarfsfólkið eru dýrmætir hlekkir í þjónustukeðjuna okkar, hvort sem það er í Skaftafelli, á Breiðamerkursandi eða annars staðar í þjóðgarðinum. Það sinnir mikilvægu viðhaldi á göngustígum, fer í fræðslugöngur með ferðafólk hvaðanæva úr heiminum, upplýsir ferðafólk og aðstoðar ásamt því að halda svæðinu snyrtilegu fyrir gesti.

Ný gjaldskrá Vatnajökulsþjóðgarðs –
innheimta svæðisgjalda á Jökulsárlóni
Í sumar hóf Vatnajökulsþjóðgarður að innheimta þjónustugjöld á Breiðamerkursandi. Verkefnið tókst vel og hefur Vatnajökulsþjóðgarður með þessu styrkt rekstur svæðisins á Breiðamerkursandi svo um munar.

Auglýst eftir samningum um atvinnutengda starfsemi
Þann 1. ágúst var auglýst eftir umsóknum um samninga um atvinnutengda starfsemi í Vatnajökulsþjóðgarði. Samningarnir eru fyrir rekstraraðila sem vilja bjóða upp á íshellaferðir og/eða jöklagöngur á Breiðamerkursandi, Falljökli/Virkisjökli og/eða Skeiðarárjökli. Samningarnir gilda frá 1. október 2023 til 30. september 2024. Ekki var um eiginlegan umsóknarfrest að ræða því aðilar geta hvenær sem er sótt um að fá samning, en markmiðið er að umsóknir sem berast eftir 1. október verði afgreiddar á 30 dögum. Því miður hefur ferlið dregist dálítið, en þegar þetta er ritað eru fimmtán fyrirtæki með fullfrágengna samninga. Eitthvað vantar enn þá upp á hjá tólf fyrirtækjum til viðbótar, en það horfir vonandi til betri vegar fljótlega.

Hræðsluganga á Höfn 2023
Þegar skammdegið fer að teygja arma sína lengra inn í dagana getur verið spennandi að takast á við myrkrið með því að fara aðeins út fyrir upplýstar götur og gangstéttir. Landverðir á Höfn buðu í Hræðslugöngu seinnipart föstudagsins 27. október. Var þetta þriðja árið sem ungir sem aldnir, vopnaðir vasaljósi og heitu kakói, mættu til myrkragöngu á Höfn. Að þessu sinni gengu hátt í 80 hugrakkir einstaklingur út frá golfskálanum á Silfurnesvelli. Stoppað var reglulega á stígnum meðfram leirunni og hlýddu gestir á draugalegar frásagnir fyrri tíma sem í ár voru tileinkaðar konum í tengslum við kvennaverkfall sem var í október.

Uppsetning á nýrri fræðslusýningu í Skaftafelli
Búið er að hanna nýja sýningu inn í gestastofuna í Skaftafelli og í desember hófst vinna við við að koma henni upp. Árið 2022 var lokið við uppsetningu á nýju fræðslutorgi framan við Skaftafellsstofu þar sem gestir geta kynnt sér fróðleik af ýmsu tagi varðandi Skaftafell, Vatnajökul og Vatnajökulsþjóðgarð. Í góðu veðri er yndislegt að rölta um og skoða myndir og fróðleik á fræðslutorginu og þar má iðulega sjá bæði einstaklinga og hópa.
Flestir gesta okkar koma í Skaftafell til að njóta náttúrufegurðarinnar, en það kemur þó vissulega fyrir að veðrið freistar fólks til að eyða tíma innandyra. Við hlökkum því mikið til dagsins sem nýja sýningin í gestastofunni verður tilbúin, sem verður á nýju ári.

Starfsfólk þjóðgarðsins á suðursvæði þakkar fyrir árið sem er að líða og við hlökkum til að taka á móti ykkur öllum á nýju ári.