Volaða Land hlýtur góðar viðtökur

0
461

Kvikmynd Hlyns Pálmasonar, Volaða Land, var heimsfrumsýnd við gífurlegan fögnuð á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Cannes 24. maí. Myndin er sýnd á aðaldagskrá hátíðarinnar, í flokki Un Certain Regard, og fengu aðstandendur hennar langt standandi lófaklapp að lokinni frumsýningunni.
Gagnrýnendur hafa ausið lofi yfir myndina og talað t.a.m. um „einstakan orginal“, „kvikmyndalist í hæsta gæðaflokki“ og að myndin sé „ríkuleg og gefandi epík sem minnir á meistara kvikmyndasögunnar“.
Fáar myndir á hátíðinni í ár hafa hlotið eins góðar viðtökur en margir tala um hana sem helstu uppgötvun hátíðarinnar. Ýmsir spyrja afhverju myndin er ekki í aðalkeppninni, aðrir segja það næsta mál á dagskrá. Panill af 18 virtum gagnrýnendum sem gefa öllum kvikmyndum hátíðarinnar stjörnugjöf, hafa gefið Volaða Landi hæstu meðaleinkunnina til þessa.
Volaða Land fjallar um ungan danskan prest sem ferðast til Íslands undir lok 19. aldar með það að markmiði að reisa kirkju og ljósmynda íbúa eyjunnar á för sinni. Elliott Crosset Hove fer með aðalhlutverkið og Ingvar Sigurðsson fer með hlutverk sérviturs leiðsögumanns, sem leiðir prestinn í gegnum harðneskjulegt landið á hestbaki ásamt hópi heimamanna. Með önnur hlutverk fara m.a. Hilmar Guðjónsson, Vic Carmen Sonne, Jacob Hauberg Lohmann, og Ída Mekkín Hlynsdóttir.
Hlynur leikstýrði og skrifaði handritið að myndinni. Fyrri verk hans hafa verið heimsfrumsýnd á kvikmyndahátíðunum í Berlín, Cannes, Locarno og Toronto, og unnið til fjölda verðlauna víðs vegar um heiminn. Stuttmyndin Sjö bátar hóf ferðalag sitt í Toronto árið 2014, kvikmyndin Vetrarbræður tók þátt í aðalkeppni Locarno árið 2017, og kvikmyndin Hvítur, Hvítur Dagur keppti í Critics’ Week á Cannes árið 2019. Þá var stuttmyndin Hreiður valin til þátttöku á þessu ári í Berlinale Special hluta Berlínarhátíðarinnar.
Volaða Land er framleidd af íslenska framleiðslufyrirtækinu Join Motion Pictures og hinu danska Snowglobe. Framleiðendur eru Anton Máni Svansson, Katrin Pors, Eva Jakobsen, og Mikkel Jersin. Meðframleiðendur eru Didar Domehri frá Maneki Films í Frakklandi, Anthony Muir og Peter Possne frá Film I Väst í Svíþjóð, Mimmi Spång frá Garagefilm í Svíþjóð, og Guðmundur Arnar Guðmundsson frá Join Motion Pictures, Íslandi.
Við óskum Hlyni og öðrum sem að myndinni komu til hamingju með árangurinn og hlökkum við til að geta séð myndina hér heima.