Vinna hafin við gerð tillögu að stjórnunar- og verndaráætlun fyrir Breiðamerkursand

0
1609
Við undirskrift samninga, frá vinstri: Hugrún Harpa Reynisdóttir, forstöðumaður Nýheima þekkingaseturs, Helga Árnadóttir, þjóðgarðsvörður á suðursvæði, Björn Ingi Jónsson, formaður svæðisráðs suðursvæðis, Kristín Hermannsdóttir, forstöðumaður Náttúrustofu Suðausturlands og Þorvarður Árnason, forstöðumaður Rannsóknaseturs HÍ á Hornafirði.

Miðvikudaginn 16. janúar s.l. gerði Vatnajökulsþjóðgarður samninga við þrjár rannsóknar­stofnanir á Hornafirði varðandi vinnu og ráðgjöf við gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir Breiðamerkursand. Ráðgjafahópurinn saman­stendur af starfsmönnum Rannsókna­seturs Háskóla Íslands á Hornafirði, Náttúrustofu Suð­austurlands og Nýheima þekkingarseturs. Það sýnir styrk og fjölbreytni í atvinnulífi Hornafjarðar að hafa til staðar fagaðila heima í héraði sem geta tekið að sér verkefni sem þessi.

Kortið sýnir svæðið sem vinnan við stjórnunar- og verndaráætlun nær yfir. Blá lína: Mörk Vatnajökulsþjóðgarðs eftir stækkun 25. júlí 2017. Bleik lína: Þjóðgarðsmörkin fram til 25. júlí 2017.
Kortið sýnir svæðið sem vinnan við stjórnunar- og verndaráætlun nær yfir. Blá lína: Mörk Vatnajökulsþjóðgarðs eftir stækkun 25. júlí 2017. Bleik lína: Þjóðgarðsmörkin fram til 25. júlí 2017.

Breiðamerkursandur varð hluti af Vatnajökulsþjóðgarði við friðlýsingu svæðisins 25. júlí 2017. Stjórnunar- og verndaráætlun er eitt meginstjórntæki þjóðgarðsins og verkfæri til stefnumótunar og ákvarðanatöku. Samkvæmt lögum þjóðgarðsins er það á ábyrgð svæðisráða að koma með tillögur að stjórnunar- og verndaráætunum. Í ljósi umfangs vinnunar á Breiðamerkursandi fékk svæðisráð suðursvæðis ráðgjafahópinn á Hornafirði til liðs við sig og umhverfis- og auðlindaráðuneytið tryggði fjármögnun vinnunnar. Svæðisráð mun vinna reglulega með ráðgjafahópnum meðan á ferlinu stendur. Svæðisráðið og ráðgjafahópurinn munu enn fremur leita eftir frekari sérfræðiaðstoð eftir því sem þörf gerist.
Vinna við gerð tillögu að stjórnunar- og verndaráætlun er samráðsferli sem felur í sér viðtöl við hagaðila, rýnihópa, íbúa- og kynningarfundi. Að auki er gagnaöflun, kortagerð, o.fl. hluti af ferlinu. Íbúar Sveitarfélagsins Hornafjarðar eru hvattir til að fylgjast vel með tilkynningum og ferli vinnunnar á næstu mánuðum. Tímaáætlun gerir ráð fyrir að tillaga svæðisráðs verði lögð fyrir stjórn þjóðgarðsins í upphafi næsta árs.
Fyrirhugað er að opna samráðsgátt um verkefnið innan skamms á vefsíðu

Vatnajökulsþjóðgarðs.
F.h. Vatnajökulsþjóðgarðs
Helga Árnadóttir, þjóðgarðsvörður