Viðurkenningar fyrir störf á sviði sjó- og strandminja

0
301

Þann 11. október 2021, veitti Samband íslenskra sjóminjasafna þremur valinkunnum mönnum viðurkenningu fyrir farsæl störf á sviði sjó- og strandminja um áratuga skeið. Þessir menn hafa starfað hver á sínu sviði en allir skilað sérlega drjúgu og merku lífsverki. Þetta eru Geir Hólm, Hafliði Aðalsteinsson og Þór Magnússon.
Geir Hólm varð safnstjóri Sjóminjasafns Austurlands á Eskifirði árið 1982 og starfaði við safnið til 75 ára aldurs, til ársins 2008 eða í 26 ár. Hann var meðal annars ötull við söfnun sjóminja á þeim tíma og gerði safnið að einu af merkustu sjóminjasöfnum landsins. Einnig lagði hann mikið af mörkum til varðveislu gamalla báta og ýmissa sögulegra mannvirkja á Austurlandi, meðal annars vitans á Dalatanga og tvö af elstu húsum Eskifjarðar, Jensenshúss og Randulfssjóhúss.
Hafliði Aðalsteinsson hefur verið starfandi tréskipasmiður alla tíð, lærði fyrst hjá föður sínum og nam síðar við Iðnskólann í Reykjavík. Hann hefur smíðað nokkurn fjölda báta og einnig og ekki síst unnið að viðgerð og endurgerð eldri báta. Hafliði var stofnfélagi og í forystu fyrir Félag áhugamanna um Bátasafn Breiðafjarðar á Reykhólum sem sett var á stofn árið 2006. Félagið byggir á gjöf föður Hafliða, sem gaf þrjá báta og öll sín tæki til safnsins. Þá hefur Hafliði verið óþreytandi við að efla þekkingu á skipasmíðum og haldið fjölda námskeiða í skipasmíði í samastarfi við IÐUNA fræðslusetur, m.a. í Reykjavík og á Reykhólum.
Þór Magnússon var þjóðminjavörður á árunum 1968-2000. Eitt af þeim sviðum sem hann lét sig miklu var bátavarðveisla og sjóminjar. Var hann þar á margan hátt brautryðjandi því að Þjóðminjasafnið og byggðasöfnin höfðu sýnt meiri áhuga á sveitamenningu fyrri tíðar en minjum um sjósókn og siglingar. Í tíð Þórs hófst til að mynda markviss söfnun á gömlum bátum en þá voru söfnin á Íslandi ekki farin að sinna því svo heitið gæti. Þá má nefna hlut Þórs í að koma upp Sjóminjasafni Íslands í Hafnarfirði. Safnið markaði spor á sínum tíma þótt það starfaði í aðeins 15 ár.

Helgi Máni Sigurðsson formaður SÍS