Vetrarbræður og Hvítur, hvítur dagur

0
2684
Leikarar og tökulið fyrir Hvítur, hvítur dagur

Vetrarbræður, fyrsta kvikmynd Hlyns Pálmasonar í fullri lengd, hefur verið tilnefnd fyrir hönd Danmerkur til Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs í ár og keppir því við fjórar aðrar Norrænar myndir, frá Íslandi, Noregi, Finnlandi og Svíþjóð. Framlag Íslands er Kona fer í stríð eftir Benedikt Erlingsson. Kvikmyndaverðlaun Norðurlandsráðs verða afhend við hátíðlega athöfn í 15. skipti þann 30. október í tengslum við þing Norðurlandaráðs í Osló.
Enn fremur kom nýlega í ljós að Vetrarbræður er einnig á meðal þriggja mynda sem koma til greina sem framlag Danmerkur til Óskarsverðlauna fyrir bestu erlendu kvikmynd. Hinar myndirnar eru Lykke-Per eftir Bille August og Den skyldige eftir Gustav Möller. Danska Óskarsverðlaunanefndin mun tilkynna um endanlegt val á framlagi Danmerkur þann 20. september næstkomandi.

Kvikmyndatökur og eftirvinnsla á Hornafirði

Tökur á næstu kvikmynd Hlyns Pálmasonar eru vel á veg komnar en undanfarnar vikur hafa þær farið fram á Hornafirði og er áætlað að þær klárist fyrir lok mánaðar. Fjöldi Hornfirðinga kemur að gerð myndarinnar, sumir hafa unnið ýmis störf við undirbúning og eða upptökur, og aðrir komið fram í aukahlutverkum af ýmsu tagi.
Kvikmyndin ber titilinn Hvítur, hvítur dagur og er framleidd af Antoni Mána Svanssyni fyrir framleiðslufyrirtækið Join Motion Pictures. Fyrirtækið framleiddi síðast kvikmyndina Hjartasteinn og meðframleiddi einnig fyrri myndir Hlyns, Sjö báta og Vetrarbræður.
Í grófum dráttum fjallar þessi nýja mynd Hlyns um lögreglustjóra í litlu sjávarþorpi sem byrjar að gruna mann í þorpinu um að hafa átt í sambandi við eiginkonu hans áður en hún dó í bílslysi. Grunur hans breytist fljótt í þráhyggju og leiðir hann til róttækra gjörða sem setja hann og hans nánustu í hættu. Þetta er saga um sorg, hefnd og skilyrðislausa ást.
Núna í framhaldinu af tökum hefst marga mánaða eftirvinnsluferli myndarinnar en stærsti hluti þess mun fara fram á Hornafirði. Hugmyndin er að nýta kvikmynd þessa sem stökkpall fyrir uppbyggingu alþjóðlegrar eftirvinnsluaðstöðu á Stekkakletti, þar sem stór hluti af tökum hefur nú farið fram.