Undankeppni Söngvakeppni Samfés á Suðurlandi

0
1899

USSS – Undankeppni Söngkeppni Samfés á Suðurlandi var haldin í íþróttahúsinu við Heppuskóla föstudaginn 30.nóvember 2018. Þrykkjan sá um keppnina í ár og er það í fyrsta sinn sem við höldum þessa keppni því Þrykkjan sameinaðist Suðurlandi nú í vor.   Það voru keppendur frá tólf félagsmiðstöðvum af Suðurlandi sem kepptu um þrjú sæti sem verða fulltrúar Suðurlands í Söngkeppni Samfés þann 23. mars 2019.
Þrykkjan átti einn keppenda sem komst áfram, Dagmar Lilju Óskarsdóttur sem söng lagið Heaven með Bryan Adams. Hún komst áfram í keppninni með þessu lagi og mun fara fyrir hönd Þrykkjunnar á Samfés sem verður sýnt í beinni á RÚV. Einnig komust keppendur Tvistsins í Rangárþingi eystra áfram, tvíburasysturnar Oddný Benónýsdóttir (aðal) og Freyja Benónýsdóttir (bakrödd), Einar Þór Sigurjónsson á bassa, Jón Ágústsson á rafmagnsgítar og Bjarni Sigurðsson á trommur. Frá félagsmiðstöðinni Hellinum frá Rangárþingi ytra kom þau Aron Birkir Guðmundsson og Ragnheiður Jónsdóttir. Allir unglingarnir stóðu sig mjög vel og var keppnin fjölbreytt og skemmtileg. Síðan var haldið ball fyrir unglingana og sá XX DJ Spegill um tónlistina og hélt uppi fjörinu fram eftir kvöldi. Rúsínan í pylsuendanum var svo Aron Can sem söng nokkur lög þrátt fyrir að vera handleggsbrotinn en hann brotnaði í umferðaslysi daginn fyrir keppnina.
Gestir okkar sem mættu hingað af Suðurlandi voru mjög sáttir með heimsóknina á Höfn og okkur sönn ánægja að fá þau í heimsókn.
Undirbúningshópur keppninnar færir öllum þeim sem komu að umgerð og vinnu við að gera þennan viðburð mögulegan kærlega fyrir alla aðstoðina, en mikil vinna liggur að baki svona viðburði sem samtals 380 unglingar tóku þátt í.  Það er ótrúlega gaman og gefandi að vinna með unglingunum okkar sem eru hæfileikaríkir, hugmyndaríkir og skemmtilegir. Höldum utan um þá, þá munu þeir halda áfram að blómstra í því sem þeir taka sér fyrir hendur.

Jólakveðja.
Guðbjörg Ómarsdóttir forstöðumaður Þrykkjunnar félagsmiðstöðvar í Sveitarfélaginu Hornafirði. Adisa Mesetovic verkefnisstjóri og Herdís I. Waage tómstundafulltrúi