Tilraun æðarrækt, sjálfbært samlífi

0
157
Mynd: Sunday & White studio

Föstudaginn 16. september klukkan fjögur verður opnuð sýningin Tilraun Æðarrækt sjálfbært samlífi í Svavarssafni. Sýningin er afar viðamikil en hún er afrakstur samstarfs tuttugu og sjö listamanna- og hönnuða, auk æðaræktenda.
Löng og mikil hefð er fyrir æðarrækt á Íslandi og hvergi meiri útflutningur á æðardún. Þegar víkingar settust að á Íslandi tóku þeir með sér þessa hefð frá norðurlöndunum, en dæmi um þetta nána sambýli æðarfuglsins og manna má finna í Noregi, Danmörku og Skotlandi m.a. Æðardúnn er afar verðmætur en hann er tíndur fuglinum að meinalausu og á móti vernda bændur fuglinn fyrir ýmsum rándýrum og passa að góðar aðstæður séu fyrir varp.
Sýningarstjórar eru Rúna Thors og Hildur Steinþórsdóttir, en Hanna Dís Whitehead aðstoðar við aðlögun sýningarinnar að Höfn. Þar sem sýningin er afar stór mun hún teygja sig langt út fyrir safnið og hægt verður að rekast á verk í Gömlubúð, þegar maður fer í sund eða verslar í Nettó, en farið verður í göngutúr með leiðsögn klukkan fimm á opnunardeginum.
Safnvörður hvetur íbúa Hornafjarðar og aðra áhugasama um að koma með í gönguna og að sjálfsögðu kíkja við á sýninguna, en hún mun standa opin öllum til 20. janúar á næsta ári.