Tilraun Æðarrækt – Arnhildur Pálmadóttir

0
421
Snæbjörn Brynjarsson safnvörður listasafnsins ásamt nemendum grunnskólans í skólaheimsókn í Svavarssafn.

Arnhildur Pálmadóttir arkítekt er listamaður vikunnar, en hún á eitt mest áberandi verkið á sýningunni Tilraun Æðarrækt, því það er staðsett inn í Miðbæ þar sem flestir Hornfirðingar eiga leið hjá. Arnhildur er að eigin sögn blanda af praktískum arkitekt og rugludalli með barnslegan áhuga á að skoða hin ýmsu mál frá mismunandi sjónarhornum.
„Ég fæ innblástur úr vísindum og tækni, blandað við hönnun og heimspeki, og samræðum við áhugavert fólk eins og til dæmis Sam (Sam T. Rees) sem vann æðardúnsverkefnið með mér.”
Spurð að því hvort hún hafi náð að mynda tengingu við fuglana segir Arnhildur:
„Maður tengir alltaf við dýr og náttúru og þess vegna á ég svolítið erfitt með ójafnvægið sem verður til á æðarræktarsvæðum þar sem vakta þarf fuglana, drepa mink, ref og aðra fugla til að þetta gangi upp sem konsept. Sala og notkun á æðardúni er líka áhugaverð grein vegna þess hversu lítið magn verður til af dúninum, þannig verður hann að lúxus markaðsvöru sem bara hinir auðugu geta eignast meðan þeir sem hafa minni tekjur þurfa að halda á sér hita með ódýrari gæsadún eða plasti. Þetta er ekki eins og ull sem er hágæða efni og nóg er til af fyrir alla.“
Arnhildur mælir með að allir skoði heimildarmyndir um æðarfugla því þeir kafi og syndi mjög fallega.
Í sumum löndum er hann borðaður líkt og aðrir fuglar en hamur hans var notaður í föt af frumbyggjum í Kanada. „Við skoðuðum líka viðhorf fólks sem er vegan til æðardúnstekju, en það notar ekki fatnað eða sængur úr æðardún frekar en annað úr dýraríkinu. “
Það er ekki komist hjá því að spyrja út í mjög svo sérkennilegt orðalag fólksins sem talar í vídjóverkinu. Handritið og myndefnið er tölvugert, og því spyr maður sig óhjákvæmilega hvort þarna sé vísir að framtíð listsköpunar. Fara tölvur bráðum að skapa allt fyrir okkur?
„Tölvur eru ennþá bara framlenging á okkur manneskjunum. Þær eru ekki byrjaðar að hugsa sjálfar ennþá,“ segir Arnhildur. „Verkefni okkar Sam er unnið upp úr samræðum okkar um þessi atriði sem ég nefni hér fyrir ofan. Þar sem þær voru orðnar mjög víðar og sundurslitnar þá ákváðum við að biðja gervigreindina að taka þetta saman fyrir okkur og stinga upp á söguþræði fyrir hvert og eitt atriði með áherslu á æðarrækt framtíðarinnar á tímum loftslagsbreytinga, tækniþróun í æðarræktun og endalok alheimsins.
-Verk Arnhildar og Sam er enn hægt að sjá í Miðbænum. Það er um að gera að ýta á hnapp næst þegar þið eigið leið hjá.