Sumarstarf í 400 km fjarlægð

0
1004

Í upphafi sumars auglýsti Nýheimar þekkingarsetur laust til umsóknar sumarstarf hjá setrinu. Starfið er í tengslum við átakið Sumarstörf fyrir námsmenn sem Vinnumálastofnun stendur fyrir. Er þetta í fyrsta sinn sem setrið auglýsir laust til umsóknar sumarstarf fyrir námsmenn. Engar umsóknir bárust vegna starfsins og er það vonandi til merkis um að Hornfirskir námsmenn hafi nóg fyrir stafni í sumar á öðrum vettvangi innan svæðisins.
Í ljósi þessa var ákveðið að leita til samstarfsaðila Nýheima hjá Þekkingarneti Þingeyinga á Húsavík. Þekkingarnetið auglýsti einnig sambærileg sumarstörf fyrir námsmenn og hafði fengið fjölda umsókna enda rík hefð fyrir sumarstörfum námsmanna hjá Þekkingarnetinu. Því varð úr að sumarstarfsmaður Nýheima þekkingarseturs er ungur Húsvíkingur á leið í háskólanám. Mun hann sinna verkefnum fyrir bæði setrin í sumar en hafa vinnuaðstöðu hjá Þekkingarnetinu á Húsavík.
Nýheimar þekkingarsetur hefur hug á að standa fyrir fleiri verkefnum í samstarfi við háskólanema og vonandi er þetta aðeins fyrsta skrefið í þeirri vegferð.