Sumarið í Vatnajökulsþjóðgarði

0
369
Jökulsárlón

Fræðsludagskrá Vatnajökuls­þjóðgarðs var birt nú á dögunum. Í ár valdi starfsfólk þemað loftslagsbreytingar og mun það endurspeglast í fræðslugöngum sem boðið verður upp á vítt og breitt um þjóðgarðinn. Fræðslugöngur á suðursvæði verða í boði á tímabilinu 15. júní – 16. ágúst.

Fræðsluganga í Skaftafelli

Skaftafell

Í Skaftafelli hefur verið boðið uppá fræðslugöngur og barnastundir í fjölda ára og hafa verið vel sóttar af gestum.
Barnastundir eru fyrir alla krakka á aldrinum 6-12 ára. Þar er þeim boðið að fara með landverði í náttúruskoðun og leiki. Það er alltaf jafn skemmtilegt að kynna fyrir börnunum hin ýmsu fyrirbrigði sem finnast í náttúrunni.
Í Vatnajökulsþjóðgarði blasa við margs konar ummerki jöklabreytinga sem einnig koma fram víða á jörðinni sökum hlýnunar loftslags af mannavöldum. Gangan Hörfandi Jöklar hefur skipað sér fastan sess undanfarin ár í Skaftafelli en þar gengur landvörður með gesti að Skaftafellsjökli. Nokkur stopp eru tekin á leiðinni og verða áhrif loftslagsbreytinga og mannsins á umhverfið til umræðu.
Einnig verður boðið uppá síðdegisgöngu í Skaftafelli og fjallar hún um sambúð manns og náttúru þar sem menningarminjar í Skaftafelli eru skoðaðar. Nábýli við stórbrotna og fjölbreytta náttúru mótar mannlíf og menningu á margvíslegan hátt. Snemma á öldum var staðurinn kirkjujörð og síðar konungsjörð. Bæjarhúsin stóðu fyrrum niðri á sléttlendinu við brekkurætur Gömlutúna en vegna ágangs Skeiðarár fóru tún smám saman undir sand og á árunum 1830-1850 var búsetan flutt um 100 metrum hærra upp í brekkuna.
Fræðslutorgið fyrir framan Skaftafellsstofu var opnað á síðasta ári. Á torginu er lögð áhersla á góða upplýsingagjöf um svæðið ásamt því að fræða um hið einstaka samspil mannvistar og náttúru í Skaftafelli og áhrif loftslagsbreytinga á mannlíf og umhverfi. Landvörður verður á fræðslutorginu flesta daga í sumar og veitir gestum og gangandi fræðslu og upplýsingagjöf.
Um Verslunarmannahelgina verður einnig fjölbreytt dagskrá í Skaftafelli. Sem dæmi má nefna ratleik fyrir alla fjölskylduna og landvarðaleika, að ógleymdri brennu þann 31. júlí þar sem hægt verður að þenja raddböndin.

Jökulsárlón

Á Jökulsárlóni hefur verið boðið uppá fræðslugöngu að sumri síðastliðin 2 ár. Gangan ber heitið Bláa Gullið og fjallar um sérstöðu Breiðamerkursands og Jökulsárlóns. Rætt er um mikilvægi vatns í sínum mörgu myndum og lífríkið og plöntur sem gera sér nærumhverfi Jökulsárlóns að heimili. Einnig er talað um samspil fólks og náttúrunnar og hvernig Breiðamerkursandur hefur farið frá því að vera með fáfarnari stöðum landsins í einn vinsælasta áningarstað ferðafólks.
Við bjóðum öll velkomin í Vatnajökulsþjóðgarð í sumar. Við hlökkum til að fá ykkur með í fræðslugöngur og barnastundir!
Hægt er að finna nánari upplýsingar um fræðsludagskrána inni á heimasíðu þjóðgarðsins. Þar eru einnig upplýsingar um ýmsar sérgöngur og aðra viðburði.
Hlökkum til að sjá ykkur!
Fyrir hönd Vatnajökuls­þjóðgarðs.

Landverðir
www.vjp.is