Stuðningur við Bakland samfélagsins

0
305

Björgunarfélag Hornafjarðar og Slysavarnardeildin Framtíð eru byggð upp af hugsjón og þekkingu fjölmargra félaga sem hafa, nú sem áður, unnið í sjálfboðavinnu að þeirri uppbyggingu hvort heldur í krefjandi verkefnum, við húsnæði félagsins sem og björgunartækja sem notuð hafa verið í gegnum tíðina. Samfélagslegt gildi þessara félaga er ótvírætt og það starf sem félagar hafa unnið að áratugum saman verður seint full þakkað.
Félögin eru öflugt bakland samfélagsins. Þá hefur ekki farið framhjá neinum á síðustu árum að auknar kröfur hafa komið til með vaxandi ferðaþjónustu og mörg verkefni verða stöðugt flóknari og þátttaka félagsmanna bæði í nærumhverfi sem og starfi Slysavarnarfélagsins Landsbjargar á landsvísu orðið gríðarlega viðamikið.
Sem betur fer eru margir sem lagt hafa lið í gegnum tíðina og styrkt við þá starfsemi enda erfitt að halda slíku starfi gangandi án þess að eiga góða að.

Hollvinir Björgunarfélags Hornafjarðar og Slysavarnardeildarinnar Framtíðar

Fyrirhugað er að styrkja enn frekar við bakland Björgunarfélags Hornafjarðar og Framtíðar, og hefja fjársöfnun til að stækka húsnæði, sem er löngu sprungið, með nýrri Björgunarmiðstöð og efla um leið innra starf og getu til að takast á við þau verkefni sem upp koma.
Á næstkomandi ári, 2023, verður hollvinafélagið Hornsteinn stofnað og í framhaldi leitað til einstaklinga, félagasamtaka, fyrirtækja og stofnana í þeim tilgangi að safna fjármagni til að standa undir þeirri stækkun án þess að raska rekstri þessara mikilvægu félaga.
Verkefni síðustu ára og öflugar æfingar hafa sýnt fram á mikilvægi Björgunarfélags og Framtíðar, og með því að gerast bakhjarl er unnt gefa til baka og með beinum hætti taka þátt í enn frekari uppbyggingu félaganna. Sérstaða Hornafjarðar er náttúrufegurð stranda, fjalla og jökla, sem kalla á fjölgun ferðamanna, en að sama skapi eru fjarlægðir miklar við næstu aðstoð og við verðum að efla viðbragðsgetu í því umhverfi sem við búum við í dag.
Búið er að vinna síðustu ár að ákveðinni greiningarvinnu til framtíðar með húsnæði og um leið kostnaðaráætlun, en ljóst að verkefni sem þetta gerist ekki á einni nóttu. Mikilvægt er að horfa fram í tímann og velta upp möguleikum og þörfum, bæði í innra starfi og ekki síst hvað verkefni varðar.
Allt fjármagn sem safnast mun fara beint í húsnæði Björgunarfélags Hornafjarðar og Slysavarnardeildar Framtíðar milliliðalaust og í vetur mun undirbúningur hefjast og allt traust lagt á að samfélagið sýni í verki stuðning við félaga í björgunarsveitinni okkar og styðji þannig við bakið á þeim sem fara út er aðrir leita skjóls.
Eigið gleðileg jól og farsælt komandi ár,

Undirbúningshópurinn