Stjórnmálafundur í Nýheimum

0
816

Þriðjudaginn 11. febrúar komu góðir gestir til Hafnar og héldu opinn morgunverðarfund í Nýheimum. Þetta voru ráðherrarnir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra Vinstri grænna. Með þeim í för voru þingmennirnir Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Steinunn Þóra Árnadóttir og Ari Trausti Guðmundsson ásamt góðu fylgdarliði.
Fundarefnið í Nýheimum var fjölbreytt stjórnmálaumræða samtímans. Það sem helst bar á góma var umræða um stjórnarskrá, heilbrigðismál og hjúkrun, hugmyndir um Hálendisþjóðgarð og uppbygging innviða í Vatnajökulsþjóðgarði og einkum við Jökulsárlón. Snörp umræða var um nytjarétt heimamanna innan þjóðgarðs, samgöngumál og úrgangsmál.
Fundurinn var vel sóttur og heimafólk spurði margra spurninga sem ráðamenn svöruðu eftir bestu getu. Þingmenn heimsóttu að lokum Hjúkrunarheimilið Skjólgarð áður en haldið var austur á Djúpavog.