Söfn á vegum Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar

0
652
Úr geymslu Byggðasafnsins

Menningarmiðstöð Hornafjarðar rekur fimm söfn í dag en sýningaraðstaða er misgóð eftir því hvert safnið. Það var mikið framfaraskref þegar Nýheimar voru teknir í notkun, þar er Héraðsskjalasafnið og Bókasafnið til húsa ásamt vinnuaðstöðu Menningarmiðstöðvarinnar. Listasafnið Svavarssafn er í Ráðhúsinu, þar eru fastar sýningar og einnig eru settar upp nokkrar sérsýningar á hverju ári. Mörg listaverkanna hanga uppi í stofnunum sveitarfélagsins og þar geta gestir notið þeirra. Hlutverk listasafnsins er að safna listaverkum eftir íslenska listamenn með sérstakri áherslu á skaftfellska list. Það er auðvitað útilokað að sýna öll verkin samtímis og því eru mörg þeirra í geymslum á milli þess sem þau eru sýnd.
Náttúrugripasafnið á ekki sérstakt sýningarrými á borð við Svavarssafn en nokkrir munir þess eru til sýnis í Bókasafninu og Gömlubúð, annað er í geymslu.
Byggða- og náttúrugripasafnið í Gömlubúð var mikill ævintýraheimur. Gamlabúð var verslunarhús við Papós og flutt að Höfn í Hornafirði þegar verslunin færðist þangað, til mikils hagræðis fyrir flesta íbúa sýslunnar. Sögu hússins og ferðalagi þess eru gerð ágæt skil í Gömlubúð í dag: m.a. frá hafnarsvæðinu þegar það var gert að byggða- og náttúrugripasafni og svo aftur á hafnarsvæðið þegar það var gert að gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs. Í Gömlubúð eru einnig sýndir ýmsir munir sem tengjast sögu og náttúru.
Söfnunarstefna byggðasafnsins er að safna minjum sem gefa heildstæða mynd af sögu og mannlífi héraðsins, minjum sem lýsa heimilishaldi, félagslífi, samgöngum og atvinnuháttum, jafnt til sjávar og sveita. Til skamms tíma var sjávarútveginum gerð skil með sýningum í Skreiðarskemmunni og í Miklagarði, en nú hafa munir úr þeirri fyrrnefndu bæst við það sem hýst er í geymslum safnsins.
Nú standa yfir endurbætur á húsnæði Miklagarðs og eins og sjá má í fundargerð Atvinnu- og menningarmálanefndar frá 27.ágúst 2020 er gert ráð fyrir að helmingur hússins verði tekinn undir sýningarhald á vegum safna sveitarfélagsins. Væntanlega verða þar bæði fastar sýningar og lifandi safn. Það orð er haft yfir breytilegar sýningar, með því móti eru meiri líkur á að sama fólkið njóti þess að koma reglulega á safnið til að sjá það sem er í gangi hverju sinni. Ákvörðun um fyrirkomulag sýninga safnsins verða þó væntanlega teknar í samstarfi starfsmanna og nefndarinnar sem fer með málaflokkinn, eins og í öðrum málefnum Menningarmiðstöðvarinnar.
Söfn Menningarmiðstöðvar starfa eftir viðeigandi lögum hvers safns. Það kemur fram í lögunum hvers safnaflokks hvernig skuli standa að móttöku nýrra aðfanga og einnig hvernig skuli standa að því að grisja safnkost.
Grisjun safngripa byggðasafns byggjast á Safnalögum og eru þau ætluð til að auka fagmennsku og gagnsæi. Mat förgunar er ekki lengur byggt á áliti viðkomandi starfsmanns heldur að fenginni umsögn sem óskað er eftir frá höfuðsafni byggðasafnsins, Þjóðminjasafninu og að fenginni umsögn Safnaráðs.
Í safnkosti margra safna getur verið að finna gripi sem skipta ekki lengur máli fyrir hlutverk safnsins. Engu að síður halda þeir áfram að vera hluti safneignarinnar, og taka þannig pláss og fela í sér kostnað fyrir stofnunina. Af ýmsum ástæðum (t.d. þegar gripir hafa orðið fyrir umfangsmiklum skemmdum eða eru metnir óþarfir vegna þess að mörg samskonar eintök eru til á safninu) er grisjun bæði rökrétt og ábyrgt skref. Það geta því komið upp aðstæður þar sem ástæða er til að fjarlægja grip sem er hluti af safnkostinum úr safneigninni. Þessi þörf til að grisja getur verið raunveruleg og aðkallandi, en mikilvægt er að huga að ýmsum formlegum og siðferðislegum atriðum áður en slíkt kemur til framkvæmda.

Úr geymslu Byggðasafnsins

Byggðasafnið á mjög marga safngripi og síðan að núverandi forstöðumaður hóf störf á Menningarmiðstöðinni 2017 hefur ekki verið staðið að grisjun safnkosts nema þá að vélum sem stóðu í Hoffelli í geymslu. Vélarnar lágu undir skemmdum og var okkur því ekki til setunnar boðið. Við fórum þá leið að bjóða fyrri eigendum þær aftur til varðveislu. Þær vélar sem ekki fóru til síns fyrri heima fóru á annað safn eins og Safnalög mæla fyrir um. Tvær vélanna eru enn í eigu safnsins.
Það var mikið framfaraskref þegar geymslur á Álaleiru leystu eldra geymsluhúsnæði af hólmi. Áður hafði aðstaðan verið ófullnægjandi og því miður voru dæmi um að safngripir lægju undir skemmdum. Undanfarin ár hefur verið boðinn aðgangur að geymslum safnsins á árlegum safnadegi og stundum oftar. Því miður höfum við ekki getað auglýst opnar geymslur á síðasta ári vegna kórónuveirufaraldursins en sem betur fer hefur dregið úr útbreiðslunni og í kjölfarið hafa sóttvarnayfirvöld boðað tilslakanir. Það er því gleðiefni fyrir okkur að geta boðið upp á opnar geymslur aftur. Stefnt er að opnum geymslu degi innan skamms og verður dagurinn auglýstur í Eystrahorni.
Að lokum viljum við hvetja íbúa og gesti til að koma á söfnin í Sveitarfélaginu Hornafirði. Bókasafnið er opið alla virka daga og þar má sjá muni sem tilheyra Náttúrugripasafni og að sjálfsögðu er þar aðstaða til að tylla sér niður með góða bók í hönd. Héraðsskjalasafnið er einnig opið alla virka daga og hægt er að biðja um aðgang að skjölum þess. Almenna reglan er sú að öllum er heimill aðgangur að skjölum í vörslu Héraðssskjalasafns Austur-Skaftafellssýslu. Á því eru nokkrar undantekningar sem lúta að almannahagsmunum og persónuvernd einstaklinga. Gott er að hafa samband við héraðsskjalavörð áður en mætt er á staðinn svo að hægt sé að hafa skjölin til reiðu. Svo er hægt að tylla sér við skrifborð á Bókasafninu til að skoða þau skjöl sem áhugi er á að lesa úr Héraðsskjalasafninu. Reglur fyrir gesti héraðsskjalasafns og um afritun skjala taka mið af reglum Þjóðskjalasafns Íslands. Opnunartíma gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs í Gömlubúð má finna á vefsíðu þeirra og starfsfólk þjóðgarðsins hefur einnig séð um að opna Verbúðina í Miklagarði fyrir áhugasama gesti, þó sýningin þar tilheyri auðvitað Byggðasafninu en ekki þjóðgarðinum. Sýningar Svavarssafns má finna á heimasíðu safnsins og þangað er ætíð gaman að koma eins og við vitum öll.

Eyrún Helga Ævarsdóttir forstöðumaður Menningarmiðstöðvar