Skráning og varðveisla minja frá Kvískerjum

0
264
Matthildur ásamt Guðlaugi Þór Þórðarsyni umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra við undirritunina

Matthildur Ásmundardóttir, bæjarstjóri undirritaði í gær samning við umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið um skráningu, flokkun og varðveislu minja frá Kvískerjum.
Menningarmiðstöð Horna­fjarðar tekur að sér verkefnið, sem umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið mun styðja með 12 milljóna króna framlagi. Verkefnið verður unnið í nánu samstarfi við landeigendur Kvískerja.
Fyrri eigendur Kvískerja, níu systkini, unnu saman að uppbyggingu jarðarinnar á 20. öld, bæði sem bújarðar og fræðaseturs. Bræðurnir, sjálfmenntaðir fræðimenn, eru þekktir fyrir fræðistörf sín og uppfinningar. Áhugasvið bræðranna var víðtækt og spannaði jurta- og dýrafræði, jöklafræði, sagnfræði, tungumál og búfræði.
Jörðin Kvísker hefur talsvert hátt verndargildi vegna náttúrufars á svæðinu. Auk þess hefur jörðin gildi m.t.t. þeirra fræðistarfa á sviði náttúruvísinda sem þar fóru fram, auk þess sem minjagildi er mikið vegna allra þeirra minja og muna sem finna má á jörðinni og tengjast því starfi.
Kvískerjasystkinin eru nú öll látin og leituðu núverandi eigendur jarðarinnar liðsinnis stjórnvalda í því skyni að bjarga minjum sem Kvískerjasystkinin létu eftir sig á staðnum og móta stefnu um framtíð jarðarinnar. Með samningnum er tryggt að mikilvægar minjar varðveitist. Sveitarfélagið Hornafjörður færir ráðuneytinu þakkir fyrir velvilja og skilning sem verkefninu er sýndur með þessum mikilvæga fjárstyrk til verkefnisins.

Matthildur Ásmundardóttir, bæjarstjóri