Skógræktarfélag Austur-Skaftafellssýslu

0
302
The campsite of Haukafell in Hornafjordur in south Iceland

Skógræktarfélag Austur-Skaftafellssýslu rekur tvö skógræktarsvæði, annað þeirra er í Haukafelli á Mýrum í landi félagsins en það hefur verið eigandi þess síðan 1985. Hitt svæðið er við Drápskletta á Höfn, nánar tiltekið milli gömlu motocrossbrautarinnar og hesthúsahverfisins í Ægissíðu.
Í Haukafelli er risinn myndarlegur skógur og hefur verið mikið verið plantað í svæðið frá því að Skógræktin eignaðist það. Í Haukafelli er salernisaðstaða og rekur félagið tjaldsvæði á staðnum. Nú er nýlokið smíði á salernisaðstöðu fyrir hreyfihamlaða sem verður flutt á svæðið í sumar. Fyrirhugaðar eru framkvæmdir við vatnsból til að tryggja drykkjarhæft vatn en vegna vatnsskorts þurfti að hafa tjaldsvæðið lokað á síðasta ári.
Um svæðið liggja merktar gönguleiðir auk þess sem að hægt er að ganga yfir Kolgrafardalsá á göngubrú að Fláajökli og Hólmsá. Eftir framkvæmdir við aðkomuveginn að svæðinu á síðastliðnu ári er hann orðinn vel fær öllum bílum. Í desember hefur myndast sú hefð að félagið selur jólatré sem fólk fellir sjálft. Aðstoða jólasveinarnir úr Fláfjalli þá við valið á jólatrjám og boðið er upp á kakó og smákökur.
Svæðið við Drápskletta hefur verið í umsjón félagsins síðan um síðustu aldamót og er þar farin að myndast skjólsæll skógur. Nemendur í Grunnskóla Hornafjarðar hafa verið duglegir að planta í svæðið og á síðasta ári plöntuðu félagar í Björgunarfélagi Hornafjarðar plöntum sem seldust í gegnum verkefnið Skjótum rótum.
Fyrir þá sem hafa áhuga á að taka þátt í skógræktarstarfi félagsins og byggja upp öflug útivistarsvæði á svæðinu bendum við á vinnudag félagsins sem haldinn verður í Haukafelli fimmtudaginn 13. maí kl. 11:00. Nýir sem núverandi meðlimir velkomnir.