Sjómannadagurinn haldinn hátíðlegur

0
1426

Sjómannadagurinn var haldinn hátíðlegur helgina 1. til 2. júní. Að þessu sinni voru það áhafnirnar á Jónu Eðvalds og Vigra sem voru í Sjómannadagsráði. Á laugardeginum var kappróðurinn, þar sem 7 lið í karlaflokki öttu kappi og bar lið Sveitavarganna sigur úr býtum á 1 mínútu 18,49 sekúndum og er það annað sinn í röð sem þeir vinna bikarinn, er þvi til mikils að vinna fyrir þá að endurtaka leikinn að ári því ef lið vinnur 3 ár í röð er bikarinn til eignar, aðeins kepptu tvö kvennalið og bar lið Grunnskóla Hornafjarðar sigur úr býtum á tímanum 1 mínútu 43,28 sekúndum og er það einnig í annað sinn í röð sem þær sigra og því á sama við um þær.
Þá voru bryggjuleikir á sínum stað koddaslagur og flekahlaup, var þátttaka eldri hópa takmörkuð en krakkarnir undu sér vel í öllum greinum og komust færri að í flekahlaupinu en vildu. Á meðan bryggjuhátíðin fór fram hélt Kvennakór Hornafjarðar sína árlegu kaffisölu sem að þessu sinn var haldin í Slysavarnarhúsinu og var vel sótt. Því næst var boðið uppá siglingu þar sem Ásgrímur Halldórsson og Jóna Eðvalds sigldu með mannskapinn og var þónokkur mannfjöldi sem sigldi eins og ávallt.
Um kvöldið var svo hátíðarkvöldverður og ball í íþróttahúsinu þar sem um 290 manns mættu á borðhaldið og allnokkuð bættist svo við á sjálfan dansleikinn. Yfir borðhaldinu var ljóstrað upp næsta sjómannadagsráði sem verða áhafnir á Þóri SF og starfsfólk Vélsmiðjunnar Foss.
Dagskrá sunnudagsins hófst með messu í Hafnarkirkju, Gunnar Örn Marteinsson flutti hugvekju og hjónin Jón Þorsteinsson og Sigurrós Erla Björnsdóttir lögðu blómsveig í minningarreit um horfna sjómenn.
Því næst hófst hátíðardagskrá á hóteltúninu, og flutti bæjarstjórinn ávarp í tilefni dagsins og tveir fyrrum sjómenn voru heiðraðir. Það voru Gísli Páll Björnsson og Ingvi þór Sigurðsson.
Bingó var spilað standandi um 3 vinninga og var því ekki þörf á pennum og barnafjöldinn beið greinilega spenntur eftir hinu árlega karamelluregni og flykktust í það en allir fengu í sig og sína.

Gísli Páll Björnsson

Gísli Páll Björnsson er fæddur á Höfn 29. apríl 1953 og ólst þar upp. Foreldrar hans voru Björn Karl Gíslason rafvirkji og Helga Elísabet Pétursdóttir húsfreyja. Gísli á tvö yngri hálfsystkini. Eiginkona Gísla er Hrefna Lúðvíksdóttir frá Ólafsvík en hún kom hingað til Hafnar á humarvertíð. Þau eiga þrjú börn, átta barnabörn og eitt barna-barnabarn. Haustið 1973 ræður Gísli sig sem vélstjóri hjá Stefáni Arngrímssyni. Gísli var síðan á hinum ýmsu bátum, ýmist sem vélstjóri eða 2. vélstjóri. Árið 1983 kaupa Hrefna og Gísli Páll ásamt Elínu Kristjönu Þorvaldsdóttur og Jóni Hafdal Héðinssyni Hafnarey SF 36 og ráku þá útgerð til ársins 2006. Í dag rekur Gísli Páll eigið fyrirtæki og tekur að sér brýnslu og viðhald á sláttuvélum fyrir golfklúbba og bæjarfélög.
Gísli Páll þakkar öllum þeim sem hann hefur starfað með og kynnst í gegnum tíðina og óskar öllum sjómönnum og fjölskyldum þeirra velfarnaðar.

Ingvi Þór Sigurðsson

Ingvi Þór Sigurðsson er fæddur á Djúpavogi 25. apríl 1950 Foreldrar hans voru Sigurður Jóhannesson sjómaður og Sigríður Hlöðversdóttir húsfreyja. Ingvi er fimmti í röðinni af 8 systkinum sem skipuðu 6 bræður og tvær systur. Hann ólst upp á Djúpavogi til 10 ára aldurs eða til 1960 þegar fjöskyldan tekur sig til og flytur á Akranes og þaðan lauk hann grunnskólaprófi.
Haustið 1966 ræður hann sig fyrst til sjós þegar hann fer á síldveiðar á Skírni AK. Um áramótin 1967 kemur Ingvi á Hornafjörð í skipsrúm á Ólafi Tryggvasyni SF 60 þar sem Birgir bróðir hans er skipstjóri. Byrjuðu þeir á línu og svo á net. Þar með hófst hornfirskur sjómannsferill Ingva og er hann 2 vertíðir á Ólafi. Það var gæfuspor að flytja á Hornafjörð því þar var kvonfang gott og þar kynntist hann spúsu sinni Þóru Ingibjörgu sem allir þekkja sem Systu. Fjölskyldan stækkað síðan og barnaskarinn telur nú 5 börn,
en það eru: Óttar Már, Helena, Signý og tvíburarnir Þóra Björg og Inga Rósa. Þess má geta að nánast allur starfsferill Ingva er hjá Útgerðarfélaginu Skinney.
Vorið 1968 fer hann á Steinunni SF 10 og þar er Birgir skipstjóri. Sumarið 1970 fer hann á Ver SF 64 með Garðari Sigurjóns sem skipstjóra. Síðan um haustið er hann aftur kominn á Ólaf Tryggvason en þá með Lúlla sem síðar er kenndur við Æskuna og eru þeir í siglingum þetta haust.
Um áramótin 1971 fer Ingvi á Skinney SF 20 með Birgi aftur og var þar þar til skipið er selt til Noregs uppí togarann Skinney sem kemur í staðinn og sigla þeir báðum skipum að heiman og heim. Ingvi er svo á togaranum frá því hann kemur 1975 og er seldur 1978 til Vestmannaeyja.
Eftir það er hann sittá hvað á Steinunni eða Frey með þeim Ingólfi Ásgrímssyni og Birgi ásamt því að vera landformaður, ýmist í beitningu eða netafellingum og öðru tilfallandi til ársins 1987 að hann gerðist verkstjóri í Fiskverkun Skinneyjar (Síðar Skinney-Þinganes) og var þar þar til hann hann tók tímabundið að sér að verða bræðslustjóri Skinneyjar árið 2006.
Í dag starfar hann í netagerð Skinneyjar-Þinganess og hefur verið síðustu 10 ár. Ingvi er þakklátur fyrir starfsferilinn,heilsuna og öllu því góða fólki sem hann hefur kynnst á lífsleiðinni.