Sjálfbærni í ferðaþjónustu – nýsköpun í þjálfun starfsfólks

0
1776

Í byrjun desember síðastliðinn héldu tveir verkefnastjórar Nýheima þekkingarseturs til Brussel til að taka þátt í fyrsta fundi SUSTAIN IT verkefnisins sem styrkt er af Erasmus+ áætlun Evrópusambandsins. Íslenskt heiti SUSTAIN IT er „Sjálfbærni í ferðaþjónustu – nýsköpun í þjálfun starfsfólks“.
Þátttakendur í verkefninu koma frá 8 stofnunum sem eru staðsettar í 6 löndum Evrópusambandsins, en auk Nýheima tekur Þekkingarnet Þingeyinga þátt í verkefninu frá Íslandi auk stofnana frá Ítalíu, Grikklandi, Belgíu, Írlandi og Spáni.
Eins og áður sagði þá er verkefnið styrkt af Erasmus+ áætlun Evrópusambandsins en þar er meðal annars lögð áhersla á fullorðinsfræðslu og geta fullorðinsfræðsluaðilar, sem og aðrir lögaðilar, s.s. fyrirtæki, aðilar vinnumarkaðar, háskólar og rannsóknastofnanir sótt um styrki til að stuðla að nýbreytni og framþróun í fullorðinsfræðslu.
SUSTAIN IT verkefnið miðar að því að skapa markvissar aðferðir til þjálfunar starfsfólks og rekstraraðila í ferðaþjónustu þar sem sjálfbærni er höfð að leiðarljósi. Þjálfunin fer fram sem bein kennsla eða yfirfærsla á þekkingu, en einnig á starfrænu formi með þeim veflæga gangagrunni sem verkefnið skapar. Markhópurinn er núverandi og mögulegir aðilar í ferðaþjónustu, og er markmiðið að bæta samkeppnishæfni þeirra og þekkingu. Mikil áhersla verður lögð á smærri ferðaþjónustuaðila sem alla jafna sjá sér ekki fært að skrá sig í langtíma nám eða námskeið. Markmiðið er því að fræðslan verði aðgengileg og auðskilin, og nýtist vel einyrkjum og smærri ferðaþjónustuaðilum.
Á fundinum í Brussel fengu þátttakendur í verkefninu tækifæri til þess að kynna sig og stofnanir sínar og kynnast þar með samstarfsaðilum sínum í verkefninu. Gríðarlega mikil þekking á Evrópuverkefnum er innan hópsins og margir erlendu samstarfsaðilanna hafa tekið þátt í tugum Erasmus+ verkefna á síðastliðnum árum. Það er því ljóst að Nýheimar þekkingarsetur munu styrkja tenglanet sitt á alþjóðavísu til muna með þátttöku í verkefninu. Þá má gera sér vonir um áframhaldandi samstarf við þátttakendur SUSTAIN IT verkefnisins í nýjum og fjölbreyttum verkefnum.
Þess ber einnig að geta að SUSTAIN IT uppfyllir vel markmið setursins um að efla menntun, stuðla að bættu framboði og aukinni fjölbreytni náms fyrir íbúa svæðisins. Nýheimar þekkingarsetri er einnig ætlað að þróa ný verkefni til eflingar atvinnu- og byggðaþróunar svæðisins sem byggja á samþættingu rannsókna, nýsköpunar, menningar og menntunar og fellur SUSTAIN IT vel að því markmiði.
Í Brussel var farið vel yfir fyrirhuguð markmið og framkvæmd SUSTAIN IT, ásamt því að teknar voru ákvarðanir um einkennismerki verkefnisins og heildar ásjónu þess á vefmiðlum.
Fyrir nánari upplýsingar um verkefnið má leita til Söndru Bjargar og Hugrúnar Hörpu hjá Nýheimum þekkingarsetri. Netfang nyheimar@nyheimar.is