Pure Mobile vs. Dolce Vita eftir Moniku Fryčová

0
1792
Listamaðurinn sækir kartöflur til Al jezur

Varúð! Ekki gera þetta heima eða erlendis.

Þetta eru aðfaraorðin að nýrri bók frá myndlistarmanninum Moniku Fryčová. Má kalla þau viðeigandi um ferðalag sem inniber bæði heimalandið og útlönd. Ísland er engu minna heimili listamannsins sem hefur búið hér í 14 ár en aðspurð segist hún ekkert frekar líta á sig sem íslenska, en tékkneska eða portúgalska. Bókin fjallar líka að miklu leyti um samalþjóðleg persónueinkenni, pan-húmanisma – ellegar landfræðilega staðsetningu vitundarinnar.
Í skemmstu máli snerist listaverkið um að fara á pínulítilli vespu frá Seyðisfirði til Lissabon, færa þeim íslenskan saltfisk og koma til baka með sætar kartöflur frá Al jezur og skila þeim af sér í Reykjavík.
Á sama tíma hóf Monika doktorsnám í Listaskólanum í Brno, Tékklandi með ritgerðina: Listamaðurinn sem þjóðfræðingur – andleg samsömun í nútímalist sem almennu rými.

Ferðin, vespa og riddari fá blessun staðargoðans á Egilsstöðum

Doktorsverkefnið og saltfiskjarflutningurinn var eitt og hið sama. Skoðað var hvernig miðjan í lífi og sköpun er mikið til ímynduð og hvernig iðja mannsins, ekki síður en vitund, dreifir sér einsog kartöflur úr því einstaka yfir í hið marga og út um allt.
Segir listamaðurinn ennfremur að það sé áhugavert hvernig kartaflan rækast einsog Rízóm, en Rízómið, auk þess að vera stöngull jarðplöntu, er heimspekikenning sem Frakkarnir Gilles Deleuse og Félix Guattari settu fram í bók sinni Kapítalismi og geðklofi.
Monika hafði samt einn fastan kjarna, auk þess ímyndaða, sem var að koma við í Brno og hefja nám sitt formlega. Að öðru leyti var ferðin algerlega óskipulögð, hver dagur gat af sér annan, hver atburður leiddi yfir í næsta og sv. frv. Listaverkið var einsog lífið sjálft, frjálst og óþvingað.
Sem dæmi um handahófskennda framvindu má nefna að listamaðurinn ætlaði sér að fara beinustu leið frá Barselónu til Lissabon en þá bárust fregnir af voðaverkum á suður Spáni og var leiðinni því breytt. Nú var tekin ferja til Tanger í Marokkó og þaðan til Portúgal.
Aðspurð hvaða kenningu eða fullyrðingu ferðin átti að sanna, segir Monika að það sé helst að allt sé mögulegt og að listamaðurinn sé vissulega líka þjóðfræðingur einsog doktorsverkefnið fjallar um. Einnig er um að ræða úttekt á nútíma gjörningalist – og því að taka listina út úr ramma sínum og stofnunum og leyfa henni að eiga sér stað í almenna rýminu meðal almennings.

Bókin

Monika setti endapunkt á verkið með því að sýna saltfiskinn í Lissabon og sætu kartöflurnar í Reykjavík. Hún lagði það sama fram sem annarverkefni sitt í Listaskólanum í Brno, en einhverra hluta vegna var hann ekki tilbúinn að taka þetta rándýra lostæti gilt sem formleg skil.
Ferðin var farin, sem áður segir, árið 2013 og útbúin um hana heimildamynd.
Vídeóvélin hafði þó ekki náð að fanga allt sem listamaðurinn hafði skynjað og skilið og hún tók til við að skrifa upp það sem á vantaði. Auk fjöldamargra ljósmynda og annarra viðbóta birtist afraksturinn sem “Hin hreina hreyfing andspænis Ljúfu lífi” eða “Pure Mobile vs. Dolce Vita”
Bókin er 600 blaðsíður.

Monika Fryčová mun kynna bókina í föstudagsfyrirlestri Nýheima þann 21. febrúar. Hefst hann sem ávallt klukkan 12.30 og er öllum opinn.