Pilot námskeið

0
388
Orðaský sýnir þau orð sem efst eru í huga þegar ungmenni Hornafjarðar hugsa um samfélagið okkar.

Nýheimar Þekkingarsetur hélt nýverið valdeflandi námskeið ætluðu ungmennum í nemendafélagi FAS og ungmennaráði Hornafjarðar. Námskeiðið er hluti af evrópuverkefninu LEGENDS, styrkt af Erasmus+. Námskeiðið heppnaðist prýðilega og megum við Hornfirðingar aldeilis vera stolt af ungu kynslóðinni sem hér býr. Megin áhersla námskeiðsins var valdefling ungmenna til frekari þátttöku í samfélaginu. Rætt var um upplifun þeirra af samfélaginu okkar , hugmyndir þeirra að betrumbótum og hvernig hægt sé að hafa áhrif út frá sér. Unga fólkið var ánægt með samfélagið okkar hér á Höfn og voru sammála um það að hér væri gott að búa. Þrátt fyrir það er ýmislegt sem unga fólkið vill sjá bætt, þau vilja aukið jafnrétti, þá sér í lagi gagnvart hinsegin fólki og öðrum hópum sem gjarnan eru jaðarsettir. Þau vilja minna slúður og að hver og einn fái tækifæri til þess að vera eins og hann er án þess að mæta mótlæti. Auk þess vilja þau að Hornfirðingar sýni umhverfi sínu meiri virðingu, þau vilja minna rusl, betri umgengni og minni bílanotkun. Aðstoðum unga fólkið okkar og gerum Hornafjörð að samfélagi sem fagnar fjölbreytileikanum og sýnir fólki sem og náttúrunni virðingu!