Órói

0
1085
Elvar Bragi og Sædís Harpa

Órói er hornfirskur dúett skipaður þeim Sædísi Hörpu Stefánsdóttur og Elvari Braga Kristjónssyni. Þau gáfu sína fyrstu plötu nú á dögunum, en platan er fjögurra laga sem er hægt að finna á allra helstu streymisveitum, eins og til dæmis Spotify.
Alveg frá því að Sædís var barn eyddi hún tímunum saman að semja ljóð í Miðtúninu með -ömmu sinni Rúnu. Það hafði alltaf verið draumur Sædísar að deila sköpunargleðinni með öðrum, og gefa ljóðunum stærri meiningu, en aldrei haft kjarkinn til að opinbera þau. Ljóðin sín sá hún svo fyrir sér í tónlist svo hún leitaði til Elvars Braga, sem er öllum Hornfirðingum kunnur. Með því hófst samstarf þeirra tveggja og dúettinn Órói varð til.
Af hverju Órói?
“Órói hefur mjög fjölþætta merkingu, allt frá því að vera dingull í klukku, Skrauthlutur úr nokkrum einingum sem hanga á bandi og hreyfast yfir í að lýsa óróleika, ókyrrð og óstöðuleika.
Allar þessar merkingar tengjum við að einhverju leyti við listina okkar. “
Um hvað fjallar platan og hver var innblásturinn?
“Órói gaf út sína allra fyrstu plötu nú á dögunum, en platan er fjögurra laga smáskífa stútfull af veðráttu, ást og efasemdum. Það mætti segja að á Íslandi sé haust 9 mánuði af árinu, fannst okkur því tilvalið að semja plötu um þá eilífðar árstíð.” Þess má geta að systir Sædísar, Hrefna Rún Kristinsdóttir á stóran þátt í textasmíðinni og lýsir haustinu af mikilli list.
Hvað er á döfinni?
“Við stefnum á að fylgja þessari plötu eftir, spila á tónleikum og semja meiri tónlist. Það blundar í okkur að koma heim á Höfn að spila, en tíminn verður að leiða það í ljós hvenær nákvæmlega.”