Opinn sjóndeildarhringur er verðmæti sem við verðum að varðveita

0
172

Bjarki Bragason er listamaður sem er Hornfirðingum góðkunnugur. Árið 2021 sýndi hann á Svavarssafni sýninguna Samtímis, en það var samstarfsverkefni með listasafni ASÍ. Á þeirri sýningu skoðaði Bjarki m.a. trjáleifar sem fundust við rætur Breiðamerkurjökuls. Bráðnun jökulsins sem hefur leitt í ljós fornar plöntuleifar hafa verið Bjarka mjög hugleiknar en hann tók þátt í leiðangri með náttúrustofu Suðurlands við gerð sýningarinnar. Enda segir Bjarki þegar hann er spurður um hvernig listamaður hann sé, að hann kanni hvernig tími mannsins og jarðfræðilegur tími skarist:
„ Ég fjalla um þá skörun sem á sér stað á okkar tímum, sem haldið hefur verið fram að kalla skuli mannöldina, það jarðfræðilega tímabil sem nú ríkir þar sem manneskjur hafa áhrif á jörðina. Ég sæki innblástur í leifar, rústir, staði í byggðu og náttúrulegu umhverfi þar sem hægt er að greina áreksturinn á milli mennskra kerfa og kerfa jarðarinnar.
En Bjarki kannar ekki bara risastór fyrirbæri eins og skóga og jökla:
„Ég rannsakaði húsagarð ömmu minnar og afa undanfarin 13 ár, en eftir að þau féllu frá hefur garður sem þau ræktuðu á melum á Kársnesinu í Kópavogi og breyttu úr gróðurlitlu jökulklappa landslagi í stóran og ræktaðan húsagarð á árunum 1945-2009 fallið í órækt og orðið villtur. Plöntur sem reiða sig á manninn og skipulag okkar eru á undanhaldi og gefa eftir nýjum plöntutegundum sem eru áttaviti á breytingar í vistkerfinu.
Á sýningunni Tilraun Æðarrækt sem nú er uppi á safninu er Bjarki með fjórar stórar loftmyndir af einu helsta varplendi æðarfugla á Íslandi, sem vill svo til að er hluti af jörð Bessastaða. Á ljósmyndunum eru byggingar og vegir þaktir málningu, og ef áhorfandinn horfir á verkið frá hlið þá er hægt að sjá skuggann af málningunni á myndfleti ljósmyndarinnar.
Kom það þér á óvart að svona mikið land heyrði undir náttúru í miðju höfuðborgarsvæðisins?
„Já það kom mér á óvart og vakti mig til umhugsunar hversu dýrmætt það er að við séum ekki búin að byggja á öllum svæðum í kring um borgina. Mér finnst opinn sjóndeildarhringur vera verðmæti sem við verðum að hugsa um og varðveita. Graslendið á Bessastaðanesi er náttúruparadís sem á sér ríka menningarsögu, sem er samt þess eðlis að hún er skrifuð í landslagið sem þúfur og tóftir, rústir varnarvirkis, og litlir stígar og auðvitað mikil fuglabyggð. Þetta eru gæði sem við ættum að varðveita um ókomna tíð.
Hvernig var að vinna verkefni með æðarfuglum?
„ Það var mjög ánægjulegt að vinna með æðarfuglinn. Ég kynntist æðarbóndanum sem ég vann með og fjölskyldu hans og fékk innsýn inn í hversu marglaga og djúpt samband er á milli manneskjunnar og fuglsins. Ég átti erfitt með að finna hvernig ég ætlaði að nálgast þetta ferli listrænt séð, en tók virkan þátt í þrjú sumur í dúnleit tvisvar á sumri og komst í góða æfingu við að tína dúninn og læra grunninn í hvernig dúnleitin fer fram. Mér þótti það merkilegt, hvernig manneskjan gengur um svæðið í hóp, það er háþróað kerfi.
Að lokum fær Bjarki sömu spurningu og allir aðrir listamenn sýningarinnar. Hvað finnst þér að allir ættu að vita um æðarfugla?
„Þessir fuglar geta orðið gamlir, yfir 20 ára, það finnst mér merkilegt!