Opið fjós í Flatey

0
4027

Nýverið opnaði veitingastofa við kúabúið í Flatey. Hún er opin frá 9-18 alla daga og þar er hægt að gæða sér á ýmsum veitingum. Íslenskur heimilismatur er meginstefið á matseðli auk hefðbundinna kaffiveitinga. Óðinn Eymundsson matreiðslumeistari hefur séð um að koma veitingastarfseminni af stað og upplegg hans er að allt sem er á matseðlinum sé matreitt á staðnum og sem mest úr staðbundnu hráefni. Úr veitingastofunni er innangengt á svalir þar sem hægt er að horfa yfir fjósið í Flatey. Á næstu dögum verður komið fyrir fræðsluefni um starfsemina. Ekkert gjald er tekið fyrir að líta inn í fjósið.

flatey_fjos-2447Búskapur

Búskapurinn í Flatey gengur vel. Birgir Freyr Ragnarsson og Vilborg Rún Guðmundsdóttir stýra daglegum verkum í Flatey. Birgir kom til starfa í Flatey þann 1. október 2016 og Vilborg kom í Flatey í lok maí eftir að hafa útskrifast frá Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri. Birgir lauk námi þaðan fyrir nokkrum misserum. Fjósið er að mestu fullgert og nú eru um 190 til 200 mjólkandi kýr en verða 240 innan tíðar. Í fyrra framleiddi Flateyjarbúið ríflega 1,5 miljónir lítra en þegar fjósið verður komið í fulla virkni þá mun framleiðslan nálgast 2 miljónir lítra. Meðalnyt kúnna núna er um 27 lítrar á dag. Í janúar síðastliðnum komst Flatey í hóp fyrirmyndarbúa eftir úttekt sem þá var framkvæmd á búinu. Í Flatey er nú beðið eftir þurrki en góð grasspretta hefur verið eftir vætusamt vor.

Afþreying

Eigendur Flateyjar hafa gert samkomulag við þrjú afþreyingarfyrirtæki um uppbyggingu aðstöðu í Flatey. Þetta eru IceExplorers sem keyra á risajeppum á Vatnajökul, Glacier Journey sem bjóða upp á snjósleða- og jeppaferðir á Vatnjökul og IceGuide sem gera út á kajaka á Heinabergslóni.
Fjósið sjálft er líka skemmtilegt að heimsækja og næra sig í leiðinni. Tilvalinn viðkomustaður fyrir gesti og gangandi. Í Flatey búa nú í sumar yfir 10 manns og allt árið eru þar 6 einstaklingar.