Opið bréf til heilbrigðisráðherra og ríkisstjórnar Íslands

0
435

Við íbúar á hjúkrunarheimilinu Skjólgarði á Höfn í Hornafirði skorum á nýjan heilbrigðisráðherra og nýja ríkisstjórn að ganga til samninga um byggingu nýs hjúkrunarheimilis á Höfn án tafar.
Nú þegar hefur dregist úr hófi að hefja viðbyggingu við hjúkrunarheimilið Skjólgarð á Höfn. Upphaflega átti framkvæmdum að ljúka á þessu ári og í nýjustu áætlun áttu þær að hefjast á síðasta ári og ljúka 2023. Ráðuneytið óskaði eftir samkeppni frá arkitektum um útfærslu á teikningum en þegar þær hugmyndir voru svo boðnar út á þessu ári þá þóttu tilboðin of dýr og málið liggur nú hjá framkvæmdasýslu ríkisins. Ekkert bólar á framkvæmdum.
Við vitum ekki hvort þið áttið ykkur á því við hvaða aðstæður við búum og hversu íþyngjandi þetta er fyrir okkur?
Hér búum við öll nema tveir einstaklingar í tvíbýli með sameiginlegu baðherbergi með öðrum heimilismönnum. Herbergisfélagar okkar eru í fæstum tilfellum makar okkar eða nánir vinir frá fornu fari. Þessir tveir einstaklingar sem hafa sérbýli deila salerni án sturtu. Hér er rými til einkalífs það sama og ekkert. Ef þarf að veita okkur persónulega þjónustu varðandi hreinlæti, lyfjagjafir, sáraumbúnað eða meðferðasamtöl er aðeins tjald á milli okkar og nágrannans í næsta rúmi. Einstaklingar með einkenni heilabilunar hafa ekkert rými til að vera illa áttaðir í friði án þess að trufla aðra. Einstaklingar með hegðunarvanda hafa heldur ekkert rými til að forðast áreiti og fá útrás og geta því verið ógnandi og valdið öðrum kvíða og vanlíðan. Í herberginu okkar er sjúkrarúm, náttborð, lítill fataskápur og sameiginlegur vaskur. Við getum komið með stól og e.t.v. eina litla kommóðu til að geyma okkur persónulegu muni eða til að reyna að hafa heimilislegt. Þessi skortur á rými veldur mörgum okkar kvíða og vanlíðan. Það er ekkert rými til að taka á móti gestum nema helst á rúmstokk. Það er ekki hægt að eiga trúnaðarsamtöl við starfsfólk því það er hvergi næði til þess. Þegar við liggjum svo banaleguna er herbergisfélagi okkar færður inn á baðherbergi svo við getum átt næði síðustu ævistundirnar með okkar ástvinum. Ef svo óheppilega vill til að herbergisfélagi okkar getur ekki farið inn á bað þá erum við færð þangað þar sem ástvinir okkar geta setið á klósettinu og kvatt okkur.

Við eigum betra skilið og við eigum betra skilið núna.

Virðingarfyllst,
íbúar á hjúkrunarheimilinu Skjólgarði, Víkurbraut 27, Höfn í Hornafirði.