Opið bréf til bæjarstjórnar Hornafjarðar

0
462

Efni: Framkvæmdir við Sindrabæ
Ágætu bæjarfulltrúar.
Okkur kennurum við Tónskóla Austur-Skaftafellssýslu ofbýður seinagangur og metnaðarleysi gagnvart tónlistarnámi og tónlistarkennslu og þeirri starfsemi sem “Tónlistarhúsi Hornafjarðar” hefur verið sýnd (Tónlistarhús Hornafjarðar – greinargerð útgefin af Glámu-Kím mars 2013).
Framkvæmdir og endurbætur á Sindrabæ hafa verið mörg ár í deiglunni og hluta endurbótanna er lokið þó nóg sé enn eftir. Við höfum haldið í þá von sem okkur er gefin af stjórnendum sveitarfélagsins þess efnis að nú séu breytingarnar rétt handan við hornið. Fundargerð frá fyrri umræðu um fjárhagsáætlun fyrir árin 2022-2025 hefur verið birt á heimasíðu sveitarfélagsins, þar eru endurbætur á Sindrabæ á áætlun á árunum 2023-2025.
Í fjárhagsáætlun fyrir líðandi ár var gert ráð fyrir framkvæmdum í Sindrabæ. Það hafðist loksins að klára hönnun og útboðsgögn, en því miður seinkaði þeirri vinnu langt fram úr hófi þannig að ekkert varð úr framkvæmdum eitt árið enn. Það er engu líkara en arkitektar og bæjarstjórn skiptist á að draga lappirnar. Þvílíkan og annan eins tíma sem það hefur tekið að hanna, teikna, spekúlera og koma einhverju í verk. Mörg undanfarin ár höfum við sem störfum í skólanum andað djúpt og látið okkur hafa það eitt árið enn að búa við óbreytt ástand. Okkur svíður að vinnubrögðin hafi verið með þessum hætti gegnum árin og engar raunverulegar breytingar séu í sjónmáli. Er vilji bæjaryfirvalda til að fylgja málinu eftir af alvöru hugsanlega ekki til staðar?
Mikil þörf er á varanlegum endurbótum í stað bráðabirgðareddinga, sem því miður hafa einkennt síðastliðin ár. Húsnæðið skortir sárlega viðhald og ljóst er að rakaskemmdir eru í húsinu. Veggina “prýðir” bólgin málning og sprungur, á gólfunum er gliðnað parket, lausar vinyl flísar og gegnslitið teppi sem eingöngu var hugsað til bráðabirgða fyrir nokkrum árum. Húsnæðið hentar auk þess ekki til tónlistarkennslu í núverandi ástandi sökum skorts á hljóðeinangrun og loftræstingu. Ljós- og hljóðkerfi eru ekki í góðum málum og vinnuaðstaða kennara, lítil og þröng kompa, er ekki ásættanleg.
Sindrabær nýtist sem húsnæði tónskólans og æfingaaðstaða fyrir hljómsveitir og hina ýmsu kóra bæjarins; kvennakór, karlakór, barnakór og unglingasönghóp. Salurinn er nýttur undir tónleika, bæði á vegum tónskólans og annarra aðila, leiksýningar og fundi. Grunnskóli Hornafjarðar og Framhaldsskóli Austur-Skaftafellssýslu nota salinn og aðrar stofur tónskólans til kennslu á hverjum vetri. Einnig nýta skólarnir salinn undir æfingar og skemmtanir. Auk þess nýta ýmis félagasamtök húsnæðið. Í kjallara hússins er æfingaaðstaða fyrir þá nemendur tónskólans sem sýnt hafa í verki að þeim sé treystandi fyrir slíkri aðstöðu. Það er ómetanlegt að geta boðið upp á slíkt athvarf fyrir okkar duglegu og áhugasömu nemendur.
Á efri hæð hússins eru fjórar kennslustofur, skrifstofa skólastjóra, herbergi með kvikmyndasýningarvél sem einnig nýtist sem geymsla fyrir hluta af nótnasafni skólans, bíósalur sem einnig nýtist sem hópkennslustofa, kennarastofa og vinnuaðstaða kennara með ljósritunarvél, prentara, tölvu, hluta af nótna- og hljóðritunarsafni skólans og vinnuborð. Þessar stofur eru ekki hljóðeinangraðar og veldur það mikilli truflun á kennslu. Hljóðbærnin veldur einbeitingarleysi hjá nemendum skólans og veitir þeim ekki öruggt námsumhverfi. Tónlistarlífið í bænum okkar hefur verið öflugt í fjöldamörg ár og í sameiningu er greinilega hægt að gera ótrúlegustu hluti. Hornfirðingar hafa fulla ástæðu til að vera stoltir af tónskólanum sínum. Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt fram tengsl tónlistar og tónlistarnáms við góðan námsárangur og bætta líðan. Tónlistarnám kennir sjálfsaga og eykur sjálfstraust, það býður upp á skapandi námsleiðir og kennir nemendum að vinna með öðrum. Öflugt fræðslu- og tómstundastarf fyrir börn og unglinga er mikilvægur þáttur í að gera sveitarfélagið að aðlaðandi búsetukosti fyrir fjölskyldufólk og mikilvægt að vel sé að því staðið.
Í aðalnámskrá tónlistarskóla, almennum hluta, er gerð grein fyrir hvernig húsakosti eigi að vera háttað hjá tónskólum landsins. Þar kemur bersýnilega í ljós að húsnæði Tónskóla Austur-Skaftafellssýslu þarfnast mikilla umbóta. Samkvæmt aðalnámskrá tónlistarskóla á að vera hljóðeinangrun og loftræsting í húsnæði tónlistarskóla og þar á einnig að vera greitt aðgengi fatlaðra. Á efri hæð Sindrabæjar er þessu öllu ábótavant og í salnum er ekki möguleiki fyrir einstaklinga með hreyfihömlun að fara upp á svið án aðstoðar. Samkvæmt aðalnámskrá á að vera skólasafn í öllum tónlistarskólum, þar sem nótur, bækur og hljóðritasafn skólans eru aðgengileg fyrir nemendur að nota. Safn Tónskóla Austur-Skaftafellssýslu er annarsvegar í herbergi með viðkvæmum sýningarbúnaði og hinsvegar í vinnukompu kennara. Það þarf að gera ráð fyrir að nemendur skólans hafi aðstöðu til lestrar, hlustunar og annarar vinnu. Nemendur þurfa einnig að hafa aðgang að æfingarýmum sem eiga að vera hljóðeinagruð.
Sveitarfélagið Hornafjörður gaf út menningarstefnu fyrir árin 2016-2026 og þar var m.a. talað um mikilvægi öflugs tónlistarlífs. Stefna átti að því að styðja við tónlistarmenntun og treysta grundvöll Tónskóla Austur-Skaftafellssýslu. Styðja átti áfram við starfsemi kóra, tónlistarhópa og tónlistarhátíða í sveitafélaginu, auk þess sem bjóða átti áfram upp á góða aðstöðu til tónlistarflutnings.
Ef viðhald á Sindrabæ, húsnæði tónskólans, Tónlistarhúsi Hornafjarðar (sbr. greinargerð Glámu-Kím 2013) er frestað eitt árið enn er enn gengið þvert á samþykkta menningarstefnu sveitarfélagsins. Þá er hvorki verið að styðja við tónlistarmenntun né boðið upp á viðunandi aðstöðu til tónlistarflutnings. Starfsemi tónskólans stendur ekki á styrkum grundvelli þegar húsnæðið er í ólagi.
Það er einlæg ósk okkar að sveitarfélagið endurskoði fjárhagsáætlun sína og komi viðhaldi og endurbótum á Sindrabæ aftur á áætlun.

Hornafirði, 18.11. 2021
Með kveðju,
Eymundur Ragnarsson,
Hafdís Hauksdóttir,
Jörg Sondermann,
Katrín Birna Þráinsdóttir,
Luiz Carlos Trindade,
Sigurlaug Björnsdóttir Blöndal