Ný líkamsræktarstöð við sundlaugina

0
315

Um þessar mundir er verið að leggja lokahönd á hönnun á nýrri líkamsræktarstöð við Sundlaug Hafnar og styttist óðum í að framkvæmdir hefjist. Verkið verður að öllum líkindum boðið út í tvennu lagi, grundunin annars vegar og bygging líkamsræktarinnar hins vegar og miðað er við stöðin opni haustið 2023. Byggingin verður um 600 m2 auk tengibyggingar, útiklefa og útisvala.
Líkamsræktin verður fyrsta umhverfisvottaða húsnæðið sem sveitarfélagið byggir en þegar húsnæði fær umhverfisvottun er sérstaklega gætt að allri hljóðvist, lýsingu og loftræstingu. Í slíkum byggingum er gert ráð fyrir mjög góðri endingu húsnæðis og að rými nýtist á hagkvæman og sveigjanlegan hátt. Minni úrgangur á að verða á byggingartímanum og byggingarefnin vistvænni. Þá er gert ráð fyrir góðri nýtingu á orku, vatni og öðrum auðlindum og að hún sé vistvæn og hagkvæm í rekstri.
Á teikningunum má sjá grunnaðstöðu í húsinu sem verður á tveimur hæðum. Á neðri hæðinni verða tveir salir og tengibygging við sundlaugina ásamt útiklefum á milli líkamsræktar og sundlaugar. Minni salurinn verður með sérstaka styrkingu í gólfinu fyrir þá sem nota þung lóð. Á efri hæðinni verða þrjú herbergi fyrir sjúkraþjálfara, nuddara eða aðra sem vilja bjóða upp á þjónustu við einstaklinga auk salar sem hægt verður að skipta í tvennt þegar þörf er á. Svalir eru á allri suðurhlið efri hæðarinnar og lyfta verður á milli hæðanna. Þess má svo geta að samhliða þessum framkvæmdum verður útbúinn sérstakur búningsklefi fyrir fatlaða og kynsegin fólk sem vilja vera út af fyrir sig eða þurfa aðstoð frá gagnstæðu kyni. Sá klefi verður með um það bil 10 skápum og verður á milli núverandi búningsklefa og við hlið gufubaðsins. Búningsklefar í líkamsrækt og sundlaug verða samnýttir og þannig geta gestir líkamsræktar skellt sér í sund að lokinni æfingu.
Í hönnunarferlinu hefur verið lögð áhersla á að samráð við notendur og nú þegar er hafið samtal við þjálfara um fyrirkomulag á aðstöðunni innan húss og nýtingu þess. Þrátt fyrir að einhver tæki séu inn á teikningunum þá segja þau ekkert til um það hvernig fyrirkomulagið verður heldur eru þau einungis til að gefa hugmynd að stærð. Þá er Sveitarfélagið Hornafjörður þátttakandi í verkefninu heilsueflandi samfélag. Líkamsræktarstöð sem er samtengd sundlaug og í næsta nágrenni við aðra íþróttaaðstöðu býður upp á margskonar möguleika á líkamsrækt og heilsueflingu fyrir alla aldurshópa og styður vel við hugmyndafræði heilsueflandi samfélags ásamt því að falla vel að heimsmarkmiðum 3, 11 og 13. Það eru þó iðkendurnir sem á endanum skera úr um það hversu vel tekst til. Þess vegna er samtalið við þjálfara og þá sem standa nú í eldlínunni við að bæta líkamlegt og andlegt ástand íbúanna svo mikilvægt. Það verða aldrei allir sammála um bygginguna sjálfa en samtalið og samvinna þeirra sem nota hana skiptir mestu máli. Framundan eru spennandi tímar með ótal tækifærum til almennrar heilsuræktar og enn fleiri möguleikum til að styðja betur við íþróttafólkið okkar. Bygging líkamsræktar er fyrsti áfangi í uppbyggingu íþróttamannvirkja á miðsvæði í samræmi við deiliskipulag sem er nú í vinnslu. Á fjárhagsáætlun sem samþykkt var fyrir árin 2023-2025 er nýtt íþróttahús á áætlun árið 2024 þar sem gert er ráð fyrir um 2000 m2 húsi með möguleika á viðbyggingu fimleikahúss.