Ný deild við leikskólann Sjónarhól

0
395

Í haust var opnuð ný deild við leikskólann Sjónarhól sem kallast Selið enda er hún einskonar sel út frá Sjónarhólsbyggingunni sjálfri. Í Selinu eru yngstu börnin og miðað er við að 10 börn geti verið þar.
Þrátt fyrir að Selið sé ekki tengt við leikskólalóðina og ekki með bestu aðstæður þá hafa bæði foreldrar og starfsmenn verið ánægðir með viðbótina. Núna er verið að skoða hvernig hægt er að bæta við húsnæði leikskólans til næstu framtíðar því börnum er smám saman að fjölga á sama tíma og meiri krafa er gerð til þess að börn geti hafið leikskólagöngu fyrr, helst strax við 12 mánaða aldur þegar fæðingarorlofi sleppir.
Það er mikilvægt fyrir sveitarfélagið að geta tekið vel á móti fólki sem flytur á svæðið og leikskólapláss og góður leikskóli er eitt af lykilatriðunum. En það er líka mikilvægt að hlúa vel að barnafjölskyldum sem búa hér. Við státum af glæsilegum leikskóla með fyrirmyndarstarfsemi en höfum fram til þessa ekki getað tekið inn öll börn strax við 12 mánaða aldur. Nú er verið að leita leiða til þess og það verður spennandi að sjá hverjar þær verða.