Nafnasamkeppni

0
641
Verið er að ljúka framkvæmdum á lóð nýs húsnæðis velferðarsviðs

-Um höfuðstöðvar velferðarsviðs Sveitarfélagsins Hornafjarðar að Víkurbraut 24

Efnt er til nafnasamkeppni meðal íbúa Sveitarfélagsins Hornafjörður um heiti á húsinu að Víkurbraut 24 þar sem nú eru höfuðstöðvar starfsemi velferðarsviðs, en húsnæðið hefur verið endurbætt m.t.t. starfsemi sviðsins. Þátttaka fer fram á heimasíðu sveitarfélagsins og er frestur til að skila inn hugmynd að nafni til 9. september nk. Slóð á heimasíðu: https://www.hornafjordur.is/thatttaka/
Með tilkomu húsnæðisins að Víkurbraut 24 sameinast öll starfsemi velferðarsviðs á einn stað. Áður voru starfsmenn með aðstöðu í Ráðhúsi, Nýheimum, skrifstofuhúsnæði í Nettó, íbúð á Silfurbraut 2, í Selinu við Víkurbraut 24, í Ekru og nú einnig í Mjallhvít, Víkurbraut 26. Aðbúnaður starfsfólks og þjónustuþega batnar til muna með tilkomu húsnæðisins. Á velferðarsviði starfa í dag 26 starfsmenn auk 4 sérfræðinga þ.e. sálfræðingur, talmeinafræðingur, félagsráðgjafar og fjölskyldumeðferðarfræðingar sem vinna í verktöku og koma reglulega 2-4 x í mánuði og eru aðallega frá Reykjavík.
Starfsemi velferðarsviðs skiptist annars vegar í fjölskyldu- og félagsþjónustu og hins vegar stuðnings-og virkniþjónustu.

Fjölskyldu-og félagsþjónusta

Fjölskyldu- og félagsþjónusta fer með málefni félagsþjónustu og barnaverndar.
Barnavernd
Barnavernd starfar samkvæmt barnaverndarlögum nr.80/2002 og veitir ráðgjöf og stuðning við foreldra, þjónustuveitendur við börn og samfélagið til að tryggja öruggar og heilbrigðar aðstæður barna. Ráðgjöf og stuðningur er veittur til foreldra til að styrkja þá í uppeldishlutverkinu. Stuðningsúrræði geta verið margvísleg og er úrræði valið í samráði við foreldra eða forsjáraðila barns og barnið sjálft og gerður samningur, svokölluð áætlun um meðferð máls. Staða barnsins/fjölskyldunnar er höfð að leiðarljósi við val á stuðningsúrræðum og lögð á það áhersla að stuðningur sé markviss og falli að þörfum hvers og eins.
Félagsþjónusta
Félagsþjónusta er starfrækt samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga nr.40/1991 og felur í sér félagslega ráðgjöf fyrir einstaklinga og fjölskyldur, ráðgjöf vegna langvarandi stuðningsþarfa meðal barna og fullorðinna, ráðgjöf við íbúa af erlendum uppruna, fjárhagsaðstoð, húsnæðismál, sérstakan húsnæðisstuðning og dagvist barna.
Félagsleg ráðgjöf tekur meðal annars til ráðgjafar vegna atvinnuleysis, veikinda, húsnæðisleysis, fjárhagsvanda, skertrar starfsgetu, fötlunar, öldrunar, málefna útlendinga, málefna barna og ungmenna, fjölskylduvanda og áfengis- og/eða annars vímuefnavanda.
Nýmæli í starfseminni er verkefnið samkomulag eftir skilnað (SES) sem felur í sér ráðgjöf í skilnaðarmálum, forsjár- og umgengnismálum, barnanna vegna.
Í júní 2020 var tekin ákvörðun um innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna með þátttöku í verkefninu Barnvænt sveitarfélag í samvinnu við félagsmálaráðuneytið og UNICEF. Innleiðing er hafin og er ábyrgðin hjá velferðarsviði en barnvænt sveitarfélag er tekur stefnumótun í sveitarfélaginu hliðsjón af þeim sem og þjónusta við börn og fjölskyldur.
Þjónustan er opin alla virka daga kl.9-15 og er notendum að kostnaðarlausu.

Stuðnings-og virkniþjónusta

Starfsemi stuðnings-og virkniþjónustu er starfrækt m.a. samkvæmt lögum um málefni aldraðra nr.125/1999 og lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir nr.38/2018 Auk laga um félagsþjónustu sveitarfélags nr.40/1991.
Stuðnings- og virkniþjónusta fer með málefni er snúa annars vegar að virkniúrræðum og starfsendurhæfingu og hins vegar að þjónustunni heim.
Virkniúrræði og starfsendurhæfing
Í virkniúrræði og starfsendurhæfingu fer fram greining og mat, einstaklingsmiðuð þverfagleg endurhæfing- atvinnu og/eða námstengd, ráðgjöf, sjálfseflingarnámskeið, heilsuefling og vinnusmiðjur.
Þjónustan Heim
Innan þjónustunnar Heim er félagsleg heimaþjónusta, dagdvöl, heimsendur matur og akstursþjónusta. Markmið þjónustunnar heim er að efla notandann til sjálfsbjargar og sjálfræðis og gera honum kleift að búa sem lengst á eigin heimili við sem eðlilegastar aðstæður. Þjónustan er stuðningsþjónusta inn á heimili, við fjölskyldur og einstaklinga og getur falið í sér aðstoð við athafnir daglegs lífs, aðstoð við heimilishald, félagslegan stuðning, aðstoð við umönnun barna og ungmenna og heimsendingu matar. Þjónustan heim vinnur náið með heimahjúkrun og Skjólgarði og er unnið að frekari samþættingu þjónustunnar í heild.
Matsnefnd tekur umsóknir til umfjöllunar og starfsmenn nefndarinnar heimsækja umsækjanda og framkvæma færnimat til að meta þörf fyrir þjónustu samkvæmt reglum um félagslega heimaþjónustu. Niðurstöður færnimats eru lagðar fyrir nefndina og þjónusta sett í framkvæmd í samræmi við niðurstöðu mats. Þverfaglegt teymi félagslegrar heimaþjónustu og heimahjúkrunar starfar með áherslu á samþætta þjónustu.
Dagdvöl fatlaðra
Dagdvöl fatlaðra er í Selinu sem er bakhús á Víkurbraut 24, þar fer fram stuðningur við virkni af ýmsu tagi og er matarþjónusta alla virka daga og á sunnudögum við notendur í sal að Víkurbraut 24.
Dagdvöl aldraðra
Í Ekru að Víkurbraut 30 er dagdvöl aldraðra og fer þar fram fjölbreytt starf sem tengist mjög félagsstarfi aldraðra. Þar er boðið upp á mat alla virka daga og á sunnudögum og er það hluti af félagsþjónustu aldraðra.
Eins og íbúum sveitarfélagsins er kunnugt hefur verið unnið í samvinnu við Embætti landlæknis að heilsueflandi samfélagi frá árinu 2016. Áherslur heilsueflandi samfélags eru lagðar til grundvallar í stuðnings-og virkniþjónustu í skipulagðri dagská með hreyfingu og almennri virkni til að fyrirbyggja félagslega einsgrun og/eða rjúfa hana. Í farvatninu er dagskrá með fjölþættri virkni fyrir aldraða og einstaklinga með skerta starfsgetu.
Umsóknir
Sótt er um þjónustu velferðarsviðs í íbúagátt sveitarfélagsins og/eða með símtali.
Sími: 470-8000
Endurbætur á húsnæðinu að Víkurbraut 24
Endurbætur á húsnæðinu að Víkurbraut 24 hófust árið 2020 og mun ljúka nú í september með frágangi á lóð. Ekki hefur átt sér stað lokauppgjör á framkvæmdinni en kostnaðurinn við endurbæturnar er áætlaður 258 m.kr.
Þegar framkvæmdum lýkur verður íbúum boðið í heimsókn og fá að kynnast starfseminni sem þar fer fram.