Menningarverðlaun Suðurlands 2022 – Fiðlufjör

0
140
Chrissie Telma veitir verðlaununum viðtöku

Þann 9. nóvember var Chrissie Telmu Guðmundsdóttur veitt Menningarverðlaun Suðurlands 2022 fyrir verkefnið Fiðlufjör. Verðlaunin eru samfélags- og hvatningarverðlaun á sviði menningar á Suðurlandi. Alls skiluðu sér 51 tilnefningar um 15 verkefni. Mikil breidd var í tilnefningum og gæðum þeirra. Eru tilnefningarnar aðeins toppurinn af ísjakanum í því mikla menningarstarfi sem á sér stað í fjórðungnum.
Fiðlufjör er þriggja daga fiðlunámskeið sem haldið er árlega á Hellu og Hvolsvelli. Þar koma saman nemendur, kennarar og aðstandendur alls staðar að af landinu og sameinast í gleði og krafti tónlistarinnar. Kennsla og þjálfun er sinnt af tónlistarfólki frá Suðurlandi í bland við kennara úr öðrum landshlutum. Haldnir eru tónleikar bæði á Hellu og Hvolsvelli í tengslum við námskeiðið og gefst gestum tækifæri að kynnast lífi og menningu annarra íbúa á svæðinu og taka með sér heim dýrmæta reynslu og jákvæða upplifun frá Suðurlandi. Fiðlufjör er tónlistarveisla sem eflir menningu á Suðurlandi, það bætir ekki aðeins samfélagið í landshlutanum heldur einnig samfélög í öðrum landshlutum. Námskeiðið hvetur börn til þátttöku og að halda áfram að læra og tileinka sér færni á hljóðfæri. Má segja að námskeiðið sé lyftistöng fyrir tónlistarlíf og menningu á svæðinu.
Chrissie Telma Guðmundsdóttir hefur með verkefninu Fiðlufjör vakið verðskuldaða athygli á menningarviðburðum og gefið jákvæða mynd af Suðurlandi. Hún hefur með eljusemi, dugnaði og metnaði unnið frábært menningarstarf á Suðurlandi og hefur hvatt börn til að taka þátt í menningarstarfi á svæðinu. Fiðlufjör hefur aukið samstöðu og skapað ný tengsl við menningu meðal íbúa. Hefur hún jafnframt aukið áhuga barna og virkni þeirra í tónlistarnámi sem er mikilvægt fyrir framtíð Suðurlands.