Með saltan sjó í æðum

0
455
Sigurður, Óli Björn og Ægir

Á Hornafirði hefur sjávarúrvegur verið burðarás í atvinnusögu staðarins. Hann þarf vart að ræða eða rita, svo samofinn er hann lífinu. Allt í kringum landið er atvinnugreinin víða í blóma, og tel ég að við Hornfirðingar getum státað af dugandi mönnum og konum í greininni. Mér finnst því fréttnæmt, jákvætt og skemmtilegt að velta hlutunum fyrir mér. Þegar ég flutti til Hafnar fyrir margt löngu fannst mér allir karlmenn vera á sjó, og þegar allt var á fullu stukku konurnar til og létu sig ekki muna um að bæta t.d. síldarsöltun við heimilishald og barnauppeldi. Mikið hvað ég leit upp til þessara kvenna, því „Reykjavíkurdaman‘‘ ég kunni ekkert til verka í þessari atvinnugrein, þrátt fyrir að vera dóttir vélstjóra. Í kringum mig voru allir sem ég umgekkst á sama stað í lífinu á þessum árum: Eiginmaðurinn á sjó og konan sá um allt hitt. Í þann tíð byggði fólk húsin sín í sveita síns andliti, vann mikið til að koma þaki yfir sig og sína. Lánstraust og afborgunarskil héldust í hendur. —- Börnin á Höfn þekktu sjómennskuna vel og fetuðu mörg þeirra í fótspor feðranna. Í minningunni eru efstir á blaði þeir tvíburabræður Haukur og Gústi Run, Palli á Lyngey, Bjössi á Hvanney, Gunnar Ásgeirs, Óli Björn, þeir bræður Óskar og Kristinn á Vegamótum, Lúlli á Æskunni, Stebbi Agga, Ingólfur Ásgríms og Birgir Sig. Sá mæti maður var sá fyrsti sem ég hitti auga til auglitis af þessum hornfirsku skipstjórum, og það um borð í Skinney sf 20. Þeir voru í slipp, Birgir var með kótilettur, Brói bauð í mat og ég taldi að radsjáin væri faxtæki. Ekki gáfulegt. Birgir sagði við kynningu á dömunni að engin héti Hestnes! Við urðum fljótt dús. Mér fannst líka mikið til koma þegar ég heyrði um Síðu – Halls útgerðina! Snemma beygðist því krókurinn hjá strákunum á þeim tíma, en núna láta þeir sér nægja að syngja Síðu – Halls valsinn þegar vel liggur á þeim.

Ásgrímur, Ingólfur yngri og Ingólfur

Þessir sem á undan er getið er kannski ekki fulltæmandi upptalning, en mörg börn þessara manna hafa haldið merkinu á lofti sem dugandi fólk í greininni. Allt upp í 5 ættliðir stunda hér sjóinn, það finnst mér aðdáunarvert. Sigurður Ólafsson, afi Óla Björns var skipstjóri á sinni tíð og eins Þorbjörn sonur hans. Þá kemur Óli Björn og sonur hans Sigurður, en lestina dregur Ægir, sonur þess síðast nefnda. Þarna eru sem sagt 5 ættliðir í beinan karllegg skipstjórnarmenn.
Ingólfur Ásgrímsson hefur heldur ekki látið sitt eftir liggja, en þar eru þrír skipstjórnarmenn. Ingólfur Ásgríms, Ásgrímur sonur hans og Ingólfur afastrákur. Ingólfur yngri fór í sína jómfrúarferð sem skipstjóri 23.september s.l. og aflinn var 71 tonn. Allir þessir menn hafa verið farsælir skipstjórnarmenn, og færir í sinni grein. Mér finnst þetta bara skolli gott, jákvætt og þess virði að minnast á. Óska þeim öllum velfarnaðar í framtíðinni.

Guðlaug Hestnes