Blámi í Svavarssafni

0
1451

Opnun listasýningarinnar Blámi var í Svavarssafni síðastliðinn laugardag. Sýningin opnaði með söng Stakra jaka sem tóku nokkur vel valin lög í tilefni dagsins. Vel var mætt á opnunina og gómsætar veitingarnar runnu ljúflega ofan í gesti.
Höfundur sýningarinnar, Þorvarður Árnason, hefur um árabil ferðast um jökulheima Hornafjarðar, dvalið þar, notið ægi- og ævintýrafegurðar og leitast við að fanga litadýrð jökla og mikilfengleika þeirra með ljósmynda- og kvikmyndavélum. Sýningin er sett upp sem hreyfimynd sem opnast og breiðir úr sér í þrívíðu rými. Verkið byggir á hrynjandi á þremur plönum: samverkan mynda og rýmis, innri kyrrðar eða hreyfingar í myndunum sjálfum og svo framvindu og samspili efniviðarins í einstökum myndbrotum, á mismunandi sýningarflötum. Sýningin hefur einnig ákveðnar fræðilegar hliðar; meðal annars hvernig blái liturinn tengist náttúrunni og ástríðu gagnvart henni í menningarsögulegu samhengi, hvernig sýningin tengist miðlun um loftslagsmál almennt, svo og róttæku, framvirku hlutverki safna og sýningarhalds í baráttunni við hamfararhlýnun.

Sýningin var hin glæsilegasta og hvetur Eystrahorn alla til þess að kíkja í Svavarssafn og skoða jökulblámann í nærmynd undir notalegu undirspili jöklahljóma.