Kynning á hönnunarsamkeppni um nýtt hjúkrunarheimili á Höfn

0
936
Verðlauna tillagan

Fimmtudaginn 20. júní voru úrslit í hönnunarsamkeppni um nýtt hjúkrunarheimili á Höfn kynnt.
Alls bárust sautján tillögur og voru þær allar metnar, þrjár tillögur hlutu viðurkenningu, en sú tillaga sem hlaut 1. verðlaun er tillaga nr. 13 frá BASALT arkitektar og EFLA verkfræðiskrifstofa.
Tillagan er byggð á Eden hugmyndafræðinni með áherslu á lífsgæði og vellíðan íbúa. Byggingin lágmarkar skuggamyndun hógværð er sýnd með tilliti til umhverfis og aðlögunar að núverandi arkitektúr. Byggingin er öll á einni hæð þar sem núverandi húsnæði er breytt í 10 manna einingu ásamt stoðrými fyrir þjónustu. Í viðbyggingu eru tvær 10 manna einingar sem mótaðar eru umhverfis sameiginlegan inngarð. Að garðinum liggja sameiginleg rými með góða yfirsýn. Á milli starfsmannarýma deildanna eru sjónræn tengsl þvert yfir garðinn. Borðstofur eininganna liggja að inngarðinum á meðan setustofurnar teygja sig út í umhverfið og mynda þannig ás sem gefur sýn út á fjörðinn.
Í samkeppnislýsingunni var lögð áhersla á að tillögur tækju m.a. mið af einstakri náttúrufegurð í umhverfi nýja hjúkrunarheimilis og kom það glöggt fram í innsendum tillögum.
Tillagan uppfyllir flest þau markmið sem dómnefnd leggur upp með. Innra skipulag gerir það að verkum að nýting starfsfólks verður með besta móti með góðri yfirsýn yfir heimilið. Herbergi íbúa eru haganlega útfærð og öll eru þau með hurð út á einkaverönd og þar er gætt jafnræðis í nýbyggingu og eldri byggingu. Góð sjónræn tengsl eru á milli eininga í gegnum garð með útsýni út í fjörð og einnig í átt að bæjarlífinu. Garður í miðju nýbyggingar býður upp á möguleika til frjálsrar útivistar íbúa og eykur þannig möguleika á örvun skynfæra. Staðsetning sjúkrarýma er vel leyst á þann hátt að góð tengsl eru við starfsmannaaðstöðu og hægt er að samnýta starfsfólk sem eykur rekstrarhagkvæmni heimilisins. Tillöguhöfundar hafa aðalinngang við kapellu sem virðist helst til þröngur en gæti vel nýst sem inngangur að kapellu. Staðsetning starfsmannainngangs er æskilegri sem aðalinngangur.
Stefnt er að útboð á verklegum framkvæmdum verði auglýst í byrjun árs 2020 og heimilið verði tekið í notkun 2021