Konsert á Fagurhólsmýri

0
455

Laugardaginnn 15. maí klukkan 15:00 mun gítarleikarinn gímaldin flytja verkið Jessica Joneses own Ringtone Reggae Theme Song í Gamla sláturhúsinu á Fagurhólsmýri. Verkið er 5ti og nýjasti hlutinn í seríal verkinu Kinly Related Metal-Reggaes, sem er í grunninn gítarsinfóníettur sem mætast á nokkrum sameiginlegum sviðum, einsog metal, elektró og reggae. Verkið er búið í myndræna umgjörð sem er í senn gjörningur og sýning, hönnuð af Evu Bjarnadóttur listamanni og sýningarstjóra í Vinnustofunni – Gamla sláturhúsinu. Eftir sýninguna, klukkan 16:00, verður boðið upp á gönguferð með Sigrúnu Sigurgeirsdóttur fyrir neðan Hamrana á Fagurhólsmýri.
Sýningin er fyrir alla aldurshópa og boðið verður upp á léttar veitingar. Opið verður eftir samkomulagi fram á miðvikudaginn 19. maí. Hægt er að hafa samband við Evu á facebook eða á evabjarna@hotmail.com.
Í einni af fjölmörgum heimsóknum Gísla Magnússonar á Fagurhólsmýri á undanförnum vikum settust Eva og Gísli saman niður, Eva í hlutverki spyrils en Gísli í hlutverki viðmælanda.
Hver er Gísli Magnússon?
Gísli Magnússon er gítarleikari og fjölfræðingur, fílólóg og líka gímaldin.
Hvernig tónlist gerir gímaldin?
Það er sjálfsagt flest allt nokkurskonar gítartónlist í grunninn, en ytri mörk hafa verið mjög færanleg. Allt frá íslensku ameríkana (heyr 5tu herdeildina og Vodka Songs), yfir í eþnó metal (Thú ert nömber og Gímaffinn kemur), yfir í franskt elektró (Holofernes 1 og 2 og Eurovision Ré C Ktúr) og síðast en ekki síst rímur og reggae (gímaldin og Haffi syngja rímur)
Hver er Jessica Jones?
Jessica Jones er Marvel hetja sem var jaðarkarakter uns Netflix gerði býsna góðar seríur um hana. Þetta verður eiginlega að útskýra sem 2 alólíka karaktera, Netflix Jessica og kómix seríur seinustu árin mynda heilsteyptan karakter sem stendur 100 prósent fyrir sínu, en sé það sett í samband við uppruna karaktersins þá kemur í ljós að hún er svona endurreistur kvenkarakter – hliðar karakter einsog Karen Page úr
Daredevil. Hún birtist upprunalega sem vinkona Kongulóarmannsins og fer í gegnum nokkur meikóver, búninga og jafnvel nafnaskiptingar
þangað til hún verður sirkabát karakterinn sem Netflix gerir síðan seríuna um.
Hin endanlega JJ er mikill nagli, einkaspæjari með ofurkrafta og heila búslóð af tilfinningabögglum.
Hvers konar viðburði eigum við von á í sláturhúsinu á Fagurhólsmýri?
Vonandi veisla fyrir auga og eyra, unaðstund í náttúru, töfrar, samhljómur og heilun.
Hvað ertu búinn að hafa fyrir stafni í kóvíd?
Það er ýmislegt, síðasta platan með Hafþóri Ólafssyni kom til dæmis alfarið til útaf kóvíð, sem og túrarnir til að kynna hana – bæði sá sem varð og ekki síður sá sem ekki varð.
Reyndar er alveg gríðarlega margt sem aldrei varð, frestaðist eða breyttist einhvernveginn útaf kóvíð.
Er Gísli Magnússon í einhverjum öðrum verkefnum?
Hef verið að dufla aðeins við að þýða rússneskar bilínur og söguljóð, en það er eitthvað í það komi í dagsljósið, þannig það má ekki segja mikið meira.