Kino á Cafe Vatnajökli

0
323

Það er stundum talað um Viktor Tsoi og Kino einsog tónlist þeirra og ljóð hafi fellt Sovétríkin. Það er býsna bratt en hrein staðreynd að hljómsveitin spilaði gríðarlega rullu í þeirri hugarfarsbreytingu sem var undanfari hrunsins. Á sama tíma er Tsoi einsog rafmagnaður Dylan, sem hljóp undan þjóðinni sem vildi gera hann að pólitískum spámanni eða praktískum Messíasi. Tilað skilja orsakasamhengið er jafnvel nauðsynlegt að kynna sér andófs-intelligentsíuna í St. Pétursborg á 9da áratugnum, en það kallast einmitt á við það hversu nauðsynlegt það er, hér og hvarsemer, að listamenn og menningarvitar hafi tækifæri til að iðka nauðsynlega gjörninga, umræðu og áhugamál.
Tsoi var bæði hinn leyndardómsfulli Jim Morrison sem var svo tengdur við kosmísk öfl að hann þurfti að vera utangarðs – en umleið mjög virkur þátttakandi í sameiginlegu listasenunni í Pétursborg milli 1982-1988 -Rock Club fjölskyldunni – þarsem öll stóru skáldin, tónsmiðir og tónlistarmenn héldu sameiginlega risatónleika og sulluðust milli hljómsveita og tóku þátt í uppsetningum hver annars.
Gímaldin mun kynna ljóðin og lögin sem höfðu svona gríðarleg áhrif, syngja lögin á íslensku og myndast við að reyna að setja allt í samhengi, einsog framast er unnt. Flest eru sammála um að kominn er tími á breytingar í Rússlandi nútímans og þessvegna ekki fráleitt að líta til þess hvernig það var gert síðast.
Dagskráin verður á Cafe Vatnajökli, laugardaginn 28.maí og hefst klukkan 18.00. Miðaverð er 2500 krónur.