Kæru Hornfirðingar

0
643

Á liðnum árum hefur skapast sú hefð að Karlakórinn Jökull hefur staðið fyrir glæsilegum jólatónleikum í Hafnarkirkju, þar sem hornfirskt tónlistarfólk hefur sameinað krafta sína og flutt sína tónlist og safnað peningum fyrir samfélagið. Hafa þessir tónleikar verið í huga margra upphafið að jólahaldinu.
En nú eins og svo margt annað á þessu ágæta ári, eru breytingar á, enda fordæmalausir tímar.
Fyrir árið 2020 var búið leggja drög að ýmsum viðburðum á vegum karlakórsins Jökuls, en flestum eða öllum höfum við þurft að fresta. Sama hvort það voru vortónleikar, dansleikir, jólatónleikar, söngur á Skjólgarði og í Miðbæ. Einnig var fyrirhugað að halda Kötlumót í maí s.l. með allt að 600 gestum. En það koma tímar og ráð og við mætum bara glöð og kát til starfa á nýju ári.
Nýlega erum við búnir að setja gömludansadiskinn okkar inn á tónlistarvefinn Spotify, og er hann aðgengilegur öllum þar. Þannig að þótt við getum ekki stigið dans í Sindrabæ eins og okkur þykir svo skemmtilegt, þá er um að gera að hlusta á diskinn og taka nokkur létt dansspor heima í stofu.
Við félagarnir í karlakórnum Jökli, sendum innilegar jólakveðjur og hvetjum ykkur að halda áfram stuðningi við samfélagið okkar, líkt við höfum gert þegar við mætum í Hafnarkirkju, og leggja Samfélagssjóði Hornafjarðar lið.

Hægt er að styrkja sjóðinn með því að leggja inn á
0172-05-060172 ; knt; 611112-0170

Með jólakveðju
Gauti Árnason
Formaður Karlakórsins Jökuls