Íbúafundur um Útivistarbæinn Höfn

0
838
Árdís fjallar um útivistarsvæði í þéttbýli

Miðvikudaginn 12. febrúar mættu rúmlega 30 manns á opinn fund í Nýheimum til að kynna sér niðurstöður úr íbúakönnun um uppbyggingu á grænum svæðum, göngu- og hjólastíga sem Sveitarfélagið Hornafjörður lagði fyrir á vordögum 2019. Könnunin var hönnuð vegna þátttöku sveitarfélagsins í samstarfsverkefninu „Attractive Towns. Green redevelopment and competitiveness in Nordic urban regions. Towns that provide a good life for all.” Verkefnið var á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar undir forystu Noregs, og kallaðist í daglegu tali Aðlaðandi og sjálfbærir bæir eða Norræna verkefnið. Árdís Erna Halldórsdóttir atvinnu- og ferðamálafulltrúi og Hugrún Harpa Reynisdóttir forstöðumaður Þekkingarsetursins Nýheima voru verkefnastjórar verkefnisins, en auk þeirra vann Bartek Skrzypkowski byggingarfulltrúi einnig mikið að verkefninu. Matthildur Ásmundardóttir bæjarstjóri opnaði fundinn, en að því loknu kynnti Bartek helstu niðurstöður könnunarinnar og Árdís fjallaði um áhrif góðra almenningssvæða á lífvænleika bæja og bæjarbrag.

Matthildur bæjarstjóri ferðast um útivistarsvæðið í Hrossó í gegnum sýndarveruleika

Meginmarkmið verkefnisins í heild var að móta sameiginlegan norrænan leiðarvísi um hvernig bæir geta orðið meira aðlaðandi með því að þróa líflegt og sjálfbært þéttbýli með Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi. Eins og áður sagði var hér í sveitarfélaginu lögð áhersla á tækifæri til útivistar og afþreyingar þar sem góð útivistar- og leiksvæði og vistvænar samgöngur voru áhersluatriði. Var það ákveðið eftir vinnufund með öllum fastanefndnum sveitarfélagsins í upphafi verkefnis þar sem megináhersla var lögð á þessa þætti. Til þess að auka íbúalýðræði, sem er mikilvægur hlekkur samkvæmt Heimsmarkmiðunum, voru prófaðar leiðir til að gera íbúum kleift að taka þátt í skipulagsferli. Til þess var notuð Maptionnaire vefkönnun sem er nýstárleg að því leyti að íbúum gafst betri kostur en venja er til að koma skoðunum sínum á framfæri hvað varðar skipulagsmál. Íbúakönnunin var opin í 3 vikur og tóku 216 íbúar þátt í henni sem er um 10% allra íbúa sveitarfélagsins. Þátttakan var langt umfram væntingar og sýnir glöggt að íbúar hafa mikinn áhuga á að taka nánari þátt í skipulagsmálum. Er öllum íbúum þakkað kærlega fyrir sitt framlag, og er sveitarfélagið þegar farið að vinna eftir ábendingum og athugasemdum sem þar komu fram. Einnig er gaman að geta þess að eftir kynningu á verkefninu á lokaráðstefnu Norræna verkefnisins ákvað Skipulagsstofnun að nýta sömu tækni við kortlagningu á ákveðnum svæðum.
Helstu niðurstöður könnunarinnar eru að íbúar vilja gjarnan tengja bæinn betur saman með göngu- og hjólastígum, auk þess sem þeir leggja ríka áherslu á að hafa aðgengileg, skjólgóð, örugg og skemmtileg útivistarsvæði í nágrenni sínu sem nýtast bæði við leik og störf. Er óhætt að segja að óskir íbúa haldist vel í hendur við heiti verkefnisins, þar sem góð almenningssvæði gera bæinn meira aðlaðandi fyrir íbúa, fyrir gesti og fyrir fyrirtæki. Þau tengja einnig bæinn traustum böndum og gera hann lífvænlegri, auk þess sem góðar tengingar göngu- og hjólaleiða ýta undir vistvænar samgöngur og gera bæinn virkari. Björn Jóhannesson landslagsarkitekt hjá Urban Beat var fenginn til að vinna hugmynd að útivistarsvæði sem byggði á niðurstöðum íbúakönnunarinnar og kynnti hann tillöguna á íbúafundinum. Að því loknu fengu íbúar að upplifa útivistarsvæðið í gegnum sýndarveruleika sem er ný tækni í slíkri hönnunarvinnu.
Niðurstöður könnunarinnar og afurðir hennar verða aðgengilegar á heimasíðu sveitarfélagsins www.hornafjordur.is. Einnig er hægt að finna leiðarvísinn sem áður var nefndur og aðrar afurðir verkefnisins alls á heimasíðunni www.regjeringen.no.

Árdís Erna Halldórsdóttir
atvinnu- og ferðamálafulltrúi Sveitarfélagsins Hornafjarðar