Humarhátíð 2022

0
715
Frá Humarhátíð 2018

Nú er sumarið komið með alla sína gleði og tilhlökkun þar sem það eru engar samkomutakmarkanir í augsýn. Helgina 24.-26.júní n.k. ætlum við að halda okkar árlegu Humarhátíð og er það knattspyrnudeild Sindra sem mun hafa veg og vanda af hátíðinni þetta árið. Hátíðin mun verða með svipuðu sniði og fyrir Covid, þ.e. humarsúpan verður á sínum stað, tónleikar í íþróttahúsinu á föstudagskvöldinu, húllum hæ á miðbæjarsvæði, heimsmeistaramót í Horna­fjarðarmanna og kassabílarallý Landsbankans svo eitthvað sé nefnt. Rúsínan í pylsuendanum er svo stórdansleikur í íþróttahúsinu á laugardagskvöldinu með hljómsveitinni Parket og er það eitthvað sem enginn má missa af.
Til þess að við getum gert hátíðina sem skemmtilegasta þá viljum við endilega fá ykkur íbúana til þess að taka þátt í sem flestu. Ef einhver er með atriði eða eitthvað annað sem hann vill fá að koma á framfæri þá má endilega hafa samband við okkur á fb síðu Humarhátíðar eða í tölvupósti á arnah@simnet.is Eins ef einhverjir eru tilbúnir að opna innkeyrsluna sína og taka á móti gestum í humarsúpu á föstudag þá látið okkur endilega vita. Vonandi eru sem flestir tilbúnir að taka þátt og gera hátíðina veglega eins og við viljum hafa hana.
Hlökkum til að eiga með ykkur skemmtilega Humarhátíð 2022.

Knattspyrnudeild Sindra