Hugurinn einatt hleypur minn

0
1230

Félag ljóðaunnenda á Austurlandi hefur nýlega gefið út ljóðabók eftir austfirska nítjándu aldar skáldkonu, Guðnýju Árnadóttur (1813–1897) sem var á sinni tíð þekkt undir heitinu Skáld-Guðný. Það segir nokkuð um álit samferðamanna á skáldkonunni. Bókin hlaut heitið: Hugurinn einatt hleypur minn og er sótt í fyrsta erindi ævikvæðis sem Guðný orti. Mikill hluti af kvæðum Guðnýjar hefur varðveist í handriti sem skráð var í Hornafirði árið 1876 og er nú í Héraðsskjalasafni Austfirðinga á Egilsstöðum. Afkomendur Guðnýjar í Lóni og Hornafirði hafa líka varðveitt kvæði eftir formóður sína sem er ómetanlegt. Lítið hefur áður birst af kvæðum Guðnýjar en hér kemur fyrir sjónir lesenda allt sem varðveist hefur af kveðskap hennar.
Rúmlega þriðjungur bókarinnar er ítarleg og áhugaverð ritgerð um æviferil Guðnýjar og kveðskap hennar. Höfundar eru Helgi Hallgrímsson náttúrufræðingur og Rósa Þorsteinsdóttir, þjóðfræðingur við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
Guðný Árnadóttir var fædd á Valþjófsstað í Fljótsdal og þar ólst hún upp fyrstu misserin hjá foreldrum sínum, Hallgerði Grímsdóttur og Árna Stefánssyni. Síðan bjuggu þau í Reyðarfirði og Fáskrúðsfirði, lengst á Kappeyri í Fáskrúðsfirði.

Skáld-Guðný

Laust eftir 1870 flutti Guðný til Bjarna sonar síns að Hvalnesi í Lóni og þar átti hún heima til æviloka, árið 1897. Fyrstu árin í Lóni stundaði hún ljósmóðurstörf við góðan orðstír. Saga Guðnýjar Árnadóttur er sérstök og mjög áhugaverð. Hún var alin upp við mikla fátækt og átti að mörgu leyti erfiða ævi en skildi eftir sig mikinn fjársjóð í ljóðum, rímum og lausavísum. Við sem getum notið kvæða hennar stöndum í þakkarskuld við það ágæta fólk í Lóni og Hornafirði sem stuðlað hefur að varðveislu kveðskapar Guðnýjar. Og nú leita kvæðin lesenda þegar liðið er nokkuð á aðra öld frá dauða höfundarins.
Útgáfan hlaut styrki frá Uppbyggingarsjóði Austurlands, Fjarðabyggð, Fljótsdalshreppi og auk þess frá nokkrum einstaklingum.

Bókina má panta hjá útgefanda með pósti á netfangið: maggistef1@simnet.is eða í síma 867-2811