Hjólabrú yfir Hnappadalsá

0
594

Í byrjun júlí í fyrra var komið fyrir 20 metra langri hjólabrú yfir Hnappadalsá inn á Stafafelli í Lóni. Brúin var smíðuð af Steini Hrúti Eiríkssyni hjá Brimuxa ehf. í Reykjavík en gerð brúarinnar var styrkt af Framkvæmdasjóði ferðamannastaða og stendur Gunnlaugur Benedikt Ólafsson að framkvæmdinni. Styrkurinn fékkst til að brúa Hnappadalsá og Víðidalsá og með því opna gönguleið um Stafafell gegnum Víðidal, Kollumúla, Eskifell og til byggða, þessi leið hefur verið kölluð Austurstræti. Brúin stóð af sér miklar rigningar síðastliðið sumar og greinilegt að hún er vel hönnuð og örugg fyrir göngufólk. Hún haggaðist ekki og varð vatnsmagnið í ánni aldrei það mikið að ekki væri hægt að fara yfir. Var brúin vöktuð þegar mest var í ám, lækjum og vötnun inn á Stafafelli og farið var í nokkrar vettvangsferðir til að athuga hvort hönnunin stæðist ekki allar forsendur, sem hún gerði.
Brúnni var komið fyrir neðan stórgrýttan hluta árinnar við gilkjaftinn þar sem er fínni möl en þar sem áin skiptir sér ekki af. Grafið hefur úr bakkanum innra megin þar sem brúin liggur upp að, og hefur það ekki breyst í nokkur ár. Notast var við landganga sitthvoru megin við ána til að hægt væri að ganga yfir hana. Brúin var dregin á land um miðjan september og geymd fyrir veturinn.
Brúinn mun verða komin aftur á sinn stað í byrjun júní.