Hestamennska og saga, nám er tækifæri

0
511

Nám í hestamennsku hófst formlega í FAS þann 18. ágúst. Námið veitir góða undirstöðuþekkingu í bóklegum greinum ásamt verklegri þjálfun í hestamennsku. Bóklega námið nú í haust fer fram í fjarnámi sem eykur möguleika og hentar vel fyrir þá sem eru komnir út á vinnumarkaðinn. Það er skemmtilegt hve margir sóttu um en 22 nemendur eru nú skráðir í þetta einstaklingsmiðaða nám. Þetta á að vera góður undirbúningur fyrir þátttöku í atvinnulífinu í sérhæfðum störfum innan hestamennsku og fyrir háskólanám í hestafræðum. Nú á haustönn er kennt bóklegt nám á 1. þrepi framhaldsskólans. Þá er farið í sögu íslenska hestsins, sjúkdómagreiningu, saga og notkun reiðtygja og gangtegundir íslenska hestsins. Bóklega námið á haustönn er 5 einingar og vinna nemendur 5 – 7 klukkustundir á viku í verkefnum. Allt skipulag kennslu og verkefnavinna bóklega áfangans miðast við að nemendur nýti sér námið í haust þegar kemur að verklega þætti þess eftir áramótin. Áhersla er lögð á að nemendur öðlist almenna þekkingu og færni í sögu, þjálfun og reiðmennsku íslenska hestsins. Kennari bóklega áfangans er Stefán Sturla en járningameistarinn Stefán Steinþórsson mun gera verkefni fyrir nemendur um hófa og járningar og dýralæknirinn Janine Ahrens leiða námið varðandi heilsufræði hrossa. Kennari verklega áfangans sem hefst eftir áramótin er Jasmina Koethe.