Hef alltaf séð Höfn í sterku, dulúðugu ljósi

0
326

„Já, það er þrælgaman,“ segir Elísabet Jökulsdóttir, listamaður vikunnar, aðspurð hvort henni finnist gaman að taka þátt í jólabókaflóðinu. „Þetta er svo mátulegt og ekkert yfirþyrmandi. Gaman að hitta lesendur og Guðrún Sóley Gestsdóttir var skemmtilegur spyrill á kvöldi í Bókasafni Kópavogs um daginn, þar sem hún var greinilega þrællesin í bókunum og spurði svona inní og útúr þeim. Ég ætti svo kannski að hafa upplestur í Melabúðinni.“

Gisti í fangaklefa á Höfn

Elísabet les upp á höfundakvöldi í Nýheimum í kvöld ásamt Eddu Falak, Emil Hjörvari Petersen, Arndísi Þórarinsdóttur og Arnþóri Gunnarssyni. Aðspurð hvort hún hafi áður komið á Höfn kemur Elísabet með óvænta játningu.
„Ég hef gist í fangaklefa á Höfn í Hornafirði, ég man samt ekki hvort ég gisti en ég var sett inn. Ég og vinur minn höfðum brotið umferðarreglur með því að keyra drukkin sem ég lít á sem glæp. Sem betur fer vorum við handtekin. En ég hef alltaf séð Höfn í rómantísku ljósi, svona sterku og dulúðugu.“
„Mér er meinilla við jökla og dýrka þá að sama skapi,“ bætir hún við. „Ég hef gengið yfir skriðjökul af Vatnajökli, Brúarjökul, og það kom mér gjörsamlega á óvart. Á jöklinum voru skúlptúrar úr sandi og jökullinn talaði stöðugt eins og teiknimyndafígúra, hviss, búmm, sjang, hviss. En ég ber mikla virðingu fyrir jöklum, ég á líka son sem heitir Jökull og tvíburabróðir hans Garpur klifraði einu sinni ofan í jökulsprungu til að ná í vettlinginn sinn.

Manneskjulegur gjörningur á Svavarssafni

Elísabet ætlar ekki bara að lesa upp meðan hún heimsækir Höfn heldur verður hún einnig með gjörning í Svavarssafni ásamt safnverði.
„Ég og fyrrum kosningastjóri minn, Snæbjörn Brynjarsson, erum vís til alls, þá meina ég frumlegra, skemmtilegra og manneskjulegra gjörninga. Við ætlum að vera með gjörning í safninu, mest af öllu vildi ég vera með gjörning útfrá Vatnajökli en tíminn er naumur og ég þyrfti að vera held ég mánuð á Höfn til að kynnast jöklinum eitthvað.“
Saknaðarilmur hefur hlotið mikið lof og tilnefningar til verðlauna, nú þegar. Einn þekktur bókmenntarýnir kallaði hana bestu bók skáldkonunnar hingað til. Aðspurð hvort hún sé með aðra bók í smíðum svarar Elísabet:
„Já, ég er með næstu bók í smíðum. Hún er um bernskuna, undur hennar og þetta frjósama tímabil sem bernskan getur verið og ber í sér, bernskan ber í sér frjóvgun fyrir sálina en sálin þarf á frjóvgun að halda öðruhverju í lífinu.“