Haustúthlutun Uppbyggingasjóðs Suðurlands

0
894

Þann 9. október síðastliðinn rann út umsóknarfrestur í haustúthlutun Uppbyggingasjóðs Suðurlands. Úthlutanir sjóðsins eru tvisvar á ári, í mars og október ár hvert. Sjóðurinn hefur það hlutverk að veita verkefnastyrki á sviði nýsköpunar og menningar á Suðurlandi en Sunnlendingar hafa verið mjög duglegir að sækja um til fjölbreyttra og áhugaverðra verkefna. Að þessu sinni bárust 120 umsóknir, þar af voru 51 til atvinnuþróunar og nýsköpunar og 69 menningarverkefni.
Markmið styrkveitinga atvinnuþróunar og nýsköpunar er að styðja við atvinnuskapandi- og /eða framleiðniaukandi verkefni á Suðurlandi sem efla fjölbreytileika atvinnulífs og jákvæða samfélagsþróun á Suðurlandi. Markmið menningarstyrkja er að efla menningarstarfsemi og listsköpun á Suðurlandi.
Næstu vikur verða umsóknir metnar, en sjóðurinn er samkeppnis­sjóður og umsóknir metnar út frá ákveðnum matsþáttum og þau verkefni sem best þykja hljóta styrk. Reiknað er með að niðurstöður liggi fyrir og verði gerðar opinberar um miðjan nóvember.
Umsækjendum og styrkþegum stendur til boða ráðgjöf hjá ráðgjöfum SASS sem aðstoða í öllum skrefum ferlisins, til að mynda við mótun verkefna, gerð umsókna og svo eftirfylgni þeirra verkefna sem styrk hljóta. Ráðgjafar SASS eru í þekkingasetrum vítt og breytt um Suðurland, á Selfossi, Hvolsvelli, Vestmannaeyjum, Vík og Hornafirði.