Grétar, Jón Áki og Sigurður Einar ásamt krökkunum í 1.bekk.

0
588
Kvennakórinn á söngpallinum

Kvennakór Hornafjarðar hefur ekki setið auðum höndum undanfarna mánuði þrátt fyrir samkomubann. Undir styrkri stjórn Heiðars Sigurðssonar kórstjóra tók kórinn upp þrjú lög í nokkurs konar samkomubannsútgáfu þar sem hver og ein kórkona tók upp eigin söng ásamt myndbandi sem síðan var klippt saman og birt á samfélagsmiðlum. Ekki var hægt að halda hefðbundna tónleika og því ákváðu kvennakórskonur að gleðja Hafnarbúa með því að keyra syngjandi um bæinn á glæstum söngpalli. Þessi söngferð féll greinilega í kramið hjá Hafnarbúum og þökkum við kærlega fyrir góðar móttökur.
Nú ætlar kórinn að slá botninn í söngárið með því að syngja á öllum einbreiðum brúm í sýslunni. Mikið hefur áunnist í því að útrýma einbreiðum brúm á hringvegi eitt undanfarin þrjátíu ár en þrátt fyrir það eru enn 17 einbreiðar brýr í sýslunni. Austur – Skaftafellssýsla hefur stundum verið kölluð „sýsla hinna einbreiðu brúa“ og ákváðu kvennakórskonur að vekja athygli á þessu málefni á menningarlegan hátt. Byrjað verður að syngja á austustu einbreiðu brú sýslunnar í Lóni snemma morguns laugardaginn 13. júní og síðan munu konur syngja sig í vesturátt og enda í Öræfunum.

Fyrir þá sem vilja koma og hlusta fylgir hér lausleg söngáætlun:

Hvaldalsá kl. 9.25, Reyðará, Jökulsá, Laxá, Gjádalsá, Hoffellsá kl. 12.45, Hornafjarðarfljót kl. 13.20, Djúpá, Kolgríma, Steinavötn kl. 14.30, Fellsá, Jökulsá kl. 16.00, Kvíá, Skaftafellsá kl. 17.00, Svínafellsá, Falljökulskvísl og Virkisá.