Fléttubönd

0
1422

sss frá sm1Í fyrra kom út bókin Fuglaskoðarinn eftir Stefán Sturlu, Fuglaskoðarinn er fyrsta bókin í þríleik um lögreglukonuna Lísu og samstarfsfólk hennar. Sú bók fékk góðar viðtökur í fyrra. Nýlega er komin út önnur bókin í þríleiknum, sú heitir Fléttubönd. Fimmtudaginn 29. nóvember mun Stefán Sturla segja frá bókinni og lesa kafla úr henni í bókasafninu. Jafnframt mun hann árita og selja bókina. Af því tilefni datt okkur í hug að fá hann til að segja okkur frá tilurð nýjustu bókarinnar.

Hvað geturðu sagt mér um Fléttubönd?

Í fyrra kom út fyrsta bókin í þríleiknum um rannsóknarlögreglu teymið Lísu, Tomma og Sigrúnu, sú bók heitir Fuglaskoðarinn. Ég var búinn að ganga lengi með hugmynd um að skrifa glæpasögu. Takast á við þetta bókmenntaform. Ég hef skrifað barnbækur, leikrit og jafnvel kvikmynda- og sjónvarpshandrit sem hafa ekki alltaf farið í framleiðslu, eins og gengur. En þar þróast oft persónur sem maður vill vinna meira með. Í kvikmyndahandriti sem ekki hefur farið í framleiðslu, var ég búinn að skrifa sögusvið sem ég nota fyrir Kára, lögreglumannsins sem lendir í mjög alvarlegu bílslysi með Lísu. Bílslysið og afleiðingar þess er einskonar hliðarsaga, þótt það sé að hluta til gangverkið í þríleiknum. Persónurnar hafa því verið að þróast í hinum ýmsu verkum hjá mér í gegnum árin. Þannig get ég sagt að aðdragandinn, þróunin að þessum þríleik fer að nálgast 10 ár. Þegar ég loks settist niður og byrjaði að skrifa fyrstu glæpasöguna þekkti ég því þessar persónurnar, bakgrunn þeirra og sögu. Þrátt fyrir það má finna í öllum persónum sem maður skapar einhverja eiginleika höfundar, eitthvað sem maður þekkir sjálfur, eitthvað sem fólk telur sig þekkja í höfundi eða kannast við í fari einhvers en þannig erum við öll. Þótt við séum ólík þá eigum við alltaf einhvern samnefnara með öðrum, sama hvar á heimskringlunni við búum.

Hvernig færðu hugmyndir að sögusviði bókarinnar?

Með því að skoða gömul glæpamál, upplýst og óupplýst, innlend og erlend hafa kviknað hugmyndir. Síðan hlustar maður á samræður fólks, leitar í eigin ranni og hnoðar deigið fram og til baka. Skemmtilegar frásagnir, samræður í heitapottinum eða atburðarás sem maður lendir í kveikir hugmynd eða hugmyndir sem síðan lenda í deiginu í nýrri útfærslu á blaðsíðum bókanna. Svo að sjálfsögðu tekur maður eitthvað frá sjálfum sér, úr sínum eigin reynslubanka. Það er jú grunnurinn sem maður á alltaf aðgang að.
Stundum hef ég nú reyndar haldið að það sitji einhver annar en ég og stjórni hvernig sögurnar eða samtölin þróast, eða þannig … En ég nota mjög meðvitað það stílbragð að leyfa sögunni sjálfri og persónum að segja mér hvað sé að gerast eða hvaða orðaforða þær nota. Þannig að ég hlusta mjög mikið, stundum kemur mér reyndar á óvart hvað hafi verið skrifað. Til dæmis kemur fram ákveðið bílnúmer í Fléttuböndum það var fullkomlega óundirbúið hvert það varð endanlega, meðan ég skrifaði bókina, enda átti númerið sjálft ekki að skipta máli, heldur eigandi þess. Svo þegar kom að kaflanum þar sem númerið kom endanlega fram og höfundurinn búinn að stimpla það inn í skjalið langaði mig að vita hvort það væri skráð hjá Umferðarstofu. Svo var ekki en þegar ég googlaði númerið kom niðurstað verulega á óvart.

Var vinnan við þessa bók eitthvað frábrugðin þeirri fyrstu?

Já mjög mikið. Ég var búinn að skrifa og þróa samskipti og samskiptamáta persónanna í fyrstu bókinni Fuglaskoðaranum. Þess vegna þurfti ég ekki að velta mér svo mikið upp úr þeim hluta skrifanna. Hins vegar er fléttan sjálf flóknari … eða öllu heldur hugmyndin, hvernig sögurnar tvinnast saman. Það var gaman að takast á við það. En einstaka kaflar, samtöl og þess háttar þróuðust meðan ég sat við tölvuna. Ég held líka að ákveðnar samfélagslegar skoðanir þess sem skrifaði komi ögn meira fram í Fléttuböndum. Höfundur hafi kannski verið persónulegri. Svo var ég náttúrulega búinn að fá ákveðna þjálfun við að eiga við formið, það er glæpasöguna.