Fjóshlaðan, mjólkurhúsið, jöklarnir og fjöllin, ….góð blanda!

0
762

Lengi hefur mig langað til að sjá fleiri fréttir úr ferðaþjónustunni hér á svæðinu, en þær skrifa sig ekki sjálfar og hef ég nú ákveðið að leyfa ykkur að fylgjast með því sem ég, Berglind Steinþórsdóttir og maðurinn minn Haukur Ingi Einarsson erum að brasa þessa dagana í fyrirtækinu okkar Glacier Adventure sem er á Hala í Suðursveit. Það er svo von mín að einhver ,,grípi pennann á lofti“ og haldi áfram með pistla af því sem er í boði hér í sveitarfélaginu.
Það hefur nú verið meira um manninn á Breiðar­bólsstaðartorfunni síðustu árin, fækkun ferðamanna og það ástand sem nú ríkir er eitthvað sem hefur áhrif á alla, sama hvaða starfi og hlutverki fólk gegnir. Sumir fagna þessum rólegheitum og enn aðrir nota tímann í að gera ýmislegt sem hefur setið á hakanum lengi. Það hefur verið draumur okkar lengi að taka þátt í þeirri uppbyggingu sem er á torfunni og síðustu ár höfum við verið að breyta húsnæði sem áður var fjós og fjóshlaða í aðstöðu fyrir okkar fyrirtæki. Þannig að við höfum ekki setið auðum höndum þrátt fyrir að ferðamennirnir hafi verið færri en vanalega og nýtt tímann til endurbóta. Mjaltarbásinn er orðinn að móttöku fyrir fólk sem kemur í ferðirnar okkar og þar er líka smá verslun með helstu nauðsynjum fyrir útivistina, mjólkurhúsið er nú orðin að aðstöðu fyrir starfsfólk og núna í sumar höfum við nýtt tímann til að gera fjóshlöðuna að skemmtilegum sal sem nýtist við hin ýmsu tækifæri. Á sumrin förum við í jöklagöngur, bæði langar og stuttar á Breiðarmerkurjökul og einnig förum við í fjallgöngur með hópa.

Jóga með Huldu Laxdal í fjóshlöðunni

Það er virkilega gaman að geta nýtt húsnæði sem áður höfðu annað hlutverk og uppfæra þau en halda samt sem áður karakternum, eins og mjaltarbásinn hann er ennþá opinn að hluta og er notaður til að bæta vinnuaðstöðuna þegar leiðsögumaður er að máta jöklabrodda á fólk sem er að fara í ferð, þá þarf hann ekki að beygja sig niður. Þannig að mjaltarbásinn heldur sínu hlutverki í að bæta vinnuaðstöðuna þó svo að ekki sé verið að mjólka kýr.
Fjóshlaðan er gæluverkefni sumarsins, þetta er skemmtilegt verkefni sem á bara eftir að stækka og vonandi á næstu misserum. Stefnan er sett á að þarna verði lítið kaffihús í framtíðinni og fjóshlöðuna er hægt að nota fyrir ýmis tilefni, samkomur fyrir hópa, tónleikahald og annað álíka.
Það er gaman að sjá hvað það er orðin fjölbreytt starfsemi á torfunni, það er gisting, veitingastaðir, safn og hægt að fara í ferðar á jökla og fjöll.
Við höfum verið með hópa í ferðum og þá kemur fjóshlaðan sér vel eftir ferðina. Í sumar höfum við verið með dagsferð þar sem við förum með hópa í fjallgöngu upp Nautastíginn, inn í Hvannadal og endum í Staðarfjalli. Þetta er falleg gönguleið með ótrúlega fjölbreyttu landslagi, það eru fossar, ár, fjallstindar, gil og dýralífið er ekki síðra, þarna er flóra og fána landsins í sinni fegurstu mynd. Í lok júní fórum við í algjöra fjallastelpuferð, þá var blandaður hópur af konum sem komu allstaðar að og voru allar með það sameiginlega markmið að kynnast nýju svæði og konum sem hafa gaman af því að ganga á fjöllum. Eftir gönguna var haldið heim á Hala þar sem var boðið upp á grillaða hamborgara og samveru í fjóshlöðunni, þegar margar konur koma saman þá skortir nú ekki umræðuefni og það var aldeilis gaman hvernig til tókst. Daginn eftir þá var farið í jóga í fjóshlöðunni, þar sem stirðir skrokkar urðu mjúkir á ný og til í að takast á við fleiri göngur og ævintýri. Það væri nú ekki leiðinlegt að bæta nokkrum Mullers æfingum í anda Þórbergs Þórðarsonar inn í þessa dagsskrá, en við notum einmitt frásagnir hans af svæðinu til þess að fræða fólk um hans hugðarefni.

Fjallastelpuferðin heppnaðist virkilega vel, við ætlum að endurtaka leikinn aftur þann 18. júlí og bjóða upp á ferð fyrir konur á öllum aldri sem vilja koma og eiga góðan dag á fjöllum, í fallegu umhverfi, með leiðsögn og enda svo á hamborgaraveislu í fjóshlöðunni. Ef einhverjar vilja kynna sér þetta betur þá eru upplýsingar á heimasíðunni okkar um ferðina og endilega hafið samband við okkur í síma 571-4577 eða senda okkur tölvupóst á info@glacieradventure.is. Það má líka bóka þessa ferð fyrir hópa á öðrum tímum, bara sendið okkur línu og við græjum þetta saman. Á heimasíðunni www.glacieradventure.is er hægt að sjá fleiri myndir af breytingunni á fjóshlöðunni og aðstöðunni í mjólkurhúsinu.
Læt þetta duga í bili, njótið sumarsins!