Endurnýjun sjúkrabifreiðar

0
555

Nú er Rauði krossinn að fá sendingu númer tvö af sjúkrabifreiðum, og þegar þessi sending er komin í virkni eru komnir um 50 nýir sjúkrabílar til landsins. Alls eru rúmlega 90 bílar í landinu þannig að þetta er rúmlega helmings endurnýjun.
Við hér á Höfn fengum einmitt einn til okkar í síðustu viku og er hann nú þegar kominn í rekstur hjá okkur. Þetta er bíll sem er hefur verið á Hvolsvelli í nokkra mánuði. Hann er allur hinn fullkomnasti og er með öllum þeim þægindum og tækjabúnaði sem sjúkrabílar eru með í dag.
Á Höfn starfa á föstum vöktum 7 sjúkraflutningamenn og svo er einn sjúkraflutningamaður í afleysingum. Þó nokkur endurnýjun hefur verið hjá okkur og einnig hafa 4 sjúkraflutningamenn aflað sér aukinna réttinda á þessu sviði. Við höfum unnið statt og stöðugt að því að jafna kynjahlutverkið hjá okkur og er það nú jafnt.
Sjúkraflutningar á Höfn eru undir HSU á Selfossi og eru allir sjúkraflutningar á Suðurlandi undir sama hatti. Því höfum við hér á Höfn verið nokkuð stolt að því að fara á Selfoss á sumrin til að vinna þar á vöktum, og höfum tekið að okkur sumarafleysingar þar. Með þessu móti fáum við gríðarlega þekkingu og flotta þjálfun í allskonar flutningum. Á einni vaktartörn þar erum við kannski að taka sama fjölda og á einu ári hér á Höfn. Hefur þetta orðið til þess að hér hefur byggst upp gríðarlega sterkur og breiður hópur af öflugum sjúkraflutningamönnum.

Friðrik Jónas Friðriksson
Varðstjóri sjúkraflutninga á Höfn