Bókmenntahátíð Þórbergsseturs

0
736

Hin árlega bókmenntahátíð Þórbergsseturs verður haldin 10. mars næstkomandi í Þórbergssetri. Góðir gestir mæta á hátíðina ásamt heimamönnum og vonumst við eftir að eiga góða samverustund saman. Dagskráin ber yfirskriftina ,, Framtíð bókmenningar á Íslandi, sögur af forfeðrum og mæðrum. Takið eftir að dagskráin hefst klukkan 13:30 með söng Kvennakórs Hornafjarðar .
Fyrirlesarar eru;
Ragnar Helgi Ólafsson skáld sem fjallar um nýjustu bók sína Bókasafn föður míns – sálumessa, sem kom út á haustdögum og hlaut afar góðar móttökur auk þess að vera tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Ragnar er mennt­aður í heim­­s­peki, mynd­­list og ritlist og hefur jafn­hliða rit­­störf­­um um ára­bil starfað að sjónlistum. Þriðja bók Ragnars Helga, ljóða­bókin
Til hug­­hreyst­ingar þeim sem finna sig ekki í sam­tíma sínum hlaut Bók­mennta­verð­laun Tómasar Guð­munds­­sonar haust­ið 2015. Áður höfðu komið út skáld­sagan Bréf frá Bútan (2013) og smá­­sagna­safnið Fundur útvarps­ráðs þann 14. mars 1984 og áhrif hans á kyn­ver­und drengsins og fleiri sögur (2015). Árið 2018 fylgdi síðan Handbók um minni og gleymsku sem var tilnefnd til bæði Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Menningarverðlauna DV. Ragnar Helgi býr og starfar í Reykja­vík
Hólmfríður Helga Sigurðardóttir blaðamaður sem les upp úr bók sinni Amma – draumar í lit. Hólmfríður hefur unnið sem blaða- og fréttamaður undanfarin fimmtán ár og hefur starfað á ýmsum miðlum – Fréttablaðinu, á fréttastofu RÚV og á Stundinni, auk þess að skrifa fyrir hina og þessa miðla. Hún hefur nokkrum sinnum tekið sér frí frá blaðamennsku, þrisvar sinnum til að verja tíma með nýfæddum börnum sínum, einu sinni til að gegna tímabundinni stöðu kynningarstjóra Listahátíðar í Reykjavík og á árunum 2012-2015 bjó hún í Barcelona, þar sem hún var í meistaranámi sem ber flókinn katalónskan titil en mætti lýsa sem blöndu af blaðamennsku og ritlist. Það var þar, á einu heimþrártímabilanna sem helltust yfir hana og hugurinn var heima hjá fólkinu hennar, sem henni datt í hug að skrifa sögu ömmu sinnar.
Soffía Auður Birgisdóttir bókmenntafræðingur starfar sem fræðimaður á Rannsóknarsetri Háskóla Íslands á Höfn í Hornafirði. Hún kenndi um árabil við Háskóla Íslands og hefur í ríflega þrjá áratugi skrifað ritdóma og greinar um bókmenntir í blöð, tímarit og bækur. Árið 2015 sendi hún frá sér bókina Ég skapa – þess vegna er ég, um skrif Þórbergs Þórðarsonar sem byggð er á doktorsritgerð hennar.
Allir eru velkomnir að heimsækja sveit sólar á afmælishátíð Þórbergs Þórðarsonar, en hann var fæddur á Hala 12 . mars 1888