Aukin starfsemi og bætt aðstaða starfsmanna á Breiðamerkursandi

0
385

Við hátíðlega athöfn á björtum og fallegum sumardegi í júlí 2017 skrifaði þáverandi umhverfis- og auðlindaráðherra, Björt Ólafsdóttir, undir nýja reglugerð þar sem Breiðamerkursandur, þ.m.t. Jökulsárlón, var formlega friðlýstur sem hluti Vatnajökulsþjóðgarðs.
Frá þessum fallega sumardegi hefur mikið vatn runnið til sjávar. Ekki bara bókstaflega, heldur líka í rekstri suðursvæðis þjóðgarðsins. Í fyrstu hafði starfsfólk við Jökulsárlón aðstöðu í litlu hjólhýsi og höfðu einnig aðgang að gömlum salernisgámi sem var fyrir á staðnum. Á þessum fyrstu árum bjó starfsfólkið á Hrollaugsstöðum, þar sem það hafði einnig svolitla vinnuaðstöðu. Húsnæðið á Hrollaugsstöðum hafði fyrir þann tíma verið notað sem gistiheimili og þar áður undir skólastofur o.fl., og hentaði þjóðgarðinum ekki sem skyldi.
Í janúar 2019 flutti þjóðgarðurinn starfsemi sína úr Hrollaugsstöðum í Skaftafell, m.a. til þess að samnýta mætti starfsfólk í Skaftafelli og á Breiðamerkursandi. Það fyrirkomulag hefur gengið mjög vel, en þar sem umfang starfseminnar á Breiðamerkursandi hefur farið vaxandi er því kominn tími á að aðgreina starfsemina aftur.
Á meðan hefur Sveitarfélagið Hornafjörður, í samstarfi við Vatnajökulsþjóðgarð og með styrk frá Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, breytt þeim hluta Hrollaugsstaða sem þjóðgarðurinn leigði á sínum tíma í fimm íbúðir. Vatnajökulsþjóðgarður hefur skuldbundið sig til þess að leigja þrjár þeirra til næstu 10 ára og að auki hefur þjóðgarðurinn fengið fjórðu íbúðinni úthlutað. Íbúðirnar eru bæði tveggja- og þriggja herbergja og er öll aðstaða landvarða þar til fyrirmyndar. Um 15 mínútna akstur er frá Hrollaugsstöðum að Jökulsárlóni og um 40 mínútna akstur á Höfn.

Þörf uppbygging á aðstöðu fyrir starfmenn Vatnajökulsþjóðgarðs

Aðstaðan við Jökulsárlón er líka alltaf að batna. Tímabundnar salerniseiningar voru settar upp sumarið 2018 og Skúmaskot, viðveruhús landvarða, var sett upp í apríl 2019. Auk Breiðamerkursands munu landverðir á svæðinu sinna verkefnum á austur­hluta suðursvæðis; í Hjallanesi, á Heina­bergssvæðinu og við Hoffell.
Jökulsárlón er einn af fjölsóttustu ferða­mannastöðum Íslands en árið 2018 er áætlað að allt að 840.000 gestir hafi heimsótt svæðið. Árið 2021 er talið að um 460.000 gestir hafi heimsótt Jökulsárlón, eða tæplega 70% af þeim 688.000 gestum sem heimsóttu Ísland á árinu. Uppbygging innviða á svæðinu er í fullum gangi, en á síðustu 2 árum hafa verið gerð bílastæði í bæði eystri- og vestari Fellsfjöru. Á árinu 2022 er áætlað að sett verið upp innkomutorg á austanverðum Breiðamerkursandi, nýtt bílastæði við Nýgræðuöldur, og vinna við hönnun fráveitumannvirkja og salernishúsa er í fullum gangi. Þess má einnig geta að Jökulsárlón var á árinu 2021 valið til þess að verða eitt af fjórum fyrstu Vörðum Íslands. Það er mikil viðurkenning fyrir svæðið og hvetur okkur hjá Vatnajökulsþjóðgarði til áframhaldandi uppbyggingar á svæðinu, í samræmi við stefnu Vörðu. Nánar má lesa um Vörðu verkefnið á heimasíðu verkefnisins, www.varda.is .
Í sumar verða 8 starfsmenn auk yfirlandvarðar á svæðinu. Með áframhaldandi uppbyggingu við Jökulsárlón má gera ráð fyrir aukinni fjölgun starfsfólks á komandi árum.