Ályktun frá Ferðamálafélagi Austur-Skaftafellssýslu

0
831

Áhrifin af falli Wow-air á vormánuðum 2019 voru nokkur innan ferðaþjónustunnar strax í kjölfarið, en komu einkum fram á síðara hluta ársins 2019 þegar sætaframboð annarra flugfélaga til Íslands dróst saman. Í opinberum tölum hefur ferðamönnum fækkað á landinu á milli ára yfir jaðarmánuði ferðamannatímabilsins, sem nú þegar hefur komið illa niður á mörgum fyritækjum innan ferðaþjónustunnar.
Í ljósi fordæmalausrar stöðu innan hennar og raunar í atvinnulífinu öllu, sem einkum má rekja til Covid-19 veirunnar sem kemur í kjölfar niðursveiflu, sem að hluta til má rekja til falls Wow-air horfir atvinnugreinin fram á mikla óvissu á allra næstu vikum og mánuðum. Alls óvíst er um þessar mundir hver staðan verður þegar háannatímabil ferðaþjónustunnar mun ganga í garð, sem alla jafna er um hásumar.
Það með hvaða hætti hið opinbera stígur inn í, hvort sem um ræðir ríkisvaldið eða sveitarfélög, á allra næstu dögum og vikum getur skipt sköpum í því að treysta í sessi rekstrargrundvöll fjölmargra fyrirtækja sem í venjulegu árferði teljast lífvænleg fyrirtæki.
Fjölmargir Hornfirðingar sem áður höfðu flust búferlum til höfuðborgarinnar hafa fundið sér starfsframa í ferðaþjónustunni í heimabyggð, auk þess sem gamalgróin fyrirtæki hafa vaxið og dafnað sem aldrei fyrr hin síðustu misseri. Á þetta vitaskuld einnig við um ferðaþjónustuna í öðrum sveitarfélögum.
Mikilvægi þess fyrir sveitarfélagið að treysta í sessi starfsemi fyrirtækja í heimabyggð verður að telja ótvírætt og það sama á við um ríkisvaldið.
Þegar atvinnugreinin horfir fram á mikinn tekjusamdrátt á næstunni verður að telja að miklu skiptir að hið opinbera láti ekki eftir sitt liggja. Er skorað á stjórnvöld, sveitarfélagið auk ríkisstjórnarinnar, að endurskoða allar opinberar álögur fyrir utan það sem þegar hefur verið kynnt af hálfu ríkisstjórnarinnar. Í því sambandi verður að telja að allar almennar ákvarðanir geti stuðlað að því að hjálpa fyrirtækjum að komast yfir erfiðasta tímabilið sem virðist vera að ganga í hönd á allra næstu dögum og vikum.
Er í ljósi framangreinds við þessar fordæmalausu og óvenjulegu aðstæður lagt til, hvort sem það samræmist gildandi lögum eða þarfnast lagabreytinga, að skoða verði af hálfu hins opinbera hvort:

  • Sveitarfélög geti lækkað og/eða endurákvarðað fasteignagjöld fyrir árið 2020 á atvinnustarfssemi.
  • Ríkisstjórnin meti möguleika og áhrif þess að lækka virðisaukaskatt tímabundið innan ferðaþjónustunnar.
  • Fella megi niður gistináttagjald tímabundið.
  • Lækka megi starfshlutfall starfmanna ferðaþjónustunnar tímabundið með það fyrir augum að hluti launa greiðist úr atvinnuleysistryggingarsjóði.