Æðardrottningin í Seyðisfirði

0
184

Signý Jónsdóttir er einn af þeim listamönnum sem sýnir á sýningunni Tilraun Æðarrækt, en verk hennar og Írisar Indriðadóttur nefnist Æðardrottningin. Signý er hönnuður sem þessa stundina kannar matar- og upplifunarhönnun, en hún sækir innblástur utandyra, eins og má glögglega sjá í mörgum verka hennar.
„Það sem heillar mig hvað mest er hvað fuglinn ber mikið traust til okkar, fuglinn leitar í skjól til okkar mannfólksins og það er gott að geta gefið það,“ segir Signý. Hún segir að það var og er stórkostlegt að vinna í verkefninu og því sé engan veginn lokið, því hún og Íris koma enn hvert vor til Sigrúnar æðarbónda á Skálanesi í Seyðisfirði líkt og síðastliðin þrjú ár.
„Okkur er þakklæti efst í huga fyrir það að hafa kynnst þessum heimi og fengið að taka þátt í þessu mjög svo gefandi starfi. Nú er hver einasta kolla og bliki okkar bestu vinir sem við hlökkum til að hitta aftur næsta vor.“
Meginmarkmið verksins Æðardrottningin er að upphefja og segja sögu æðarbænda. Snemmsumars lítur æðardrottningin yfir landið sitt og sér ábúendurna koma sér fyrir. Varptíminn er hafinn. Hún rúllar upp bleiku hönskunum, ver höfuð sitt með speglakórónunni, grípur stafinn sinn og breiðir út vængina.